Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, verður sett í tólfta sinn í kvöld kl. 19:30 við hátíðlega athöfn í Gamla Bíói.
Hrönn Marinósdóttir stjórnandi RIFF segir nokkur orð, Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur mun flytja hina árlegu RIFF-Gusu og loks mun Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra setja hátíðina formlega.
Kynnir á opnunarhátíðinni er Snjólaug Lúðvíksdóttir, grínisti.
Að athöfn lokinni verður opnunarmynd hátíðarinnar sýnd, Tale of Tales eða Sagnasveigur í leikstjórn Matteo Garrone. Myndin fléttar saman þremur óvenjulegum ævintýrum. Í einu þeirra leikur Salma Hayek drottningu sem fórnar lífi eiginmanns síns sem leikinn er af John C. Reilly. Í öðru leikur Vincent Cassel konung sem er heillaður af tveimur leyndardómsfullum systrum. Ævintýrin eru öll stórbrotið sjónarspil þar sem myndlíkingar leika stórt hlutverk. Sagnasveigur keppti um Gullpálmann í Cannes núna í vor.
Hátíðin stendur í 11 daga til 4. október.