Guðný Guðjónsdóttir hefur tekið við starfi forstjóra Sagafilm en hún hefur gegnt starfi framkvæmdarstjóra félagsins frá árinu 2013 og fjármálastjóra frá 2007. Hún tekur við stöðunni af Ragnari Agnarssyni sem tekur stöðu stjórnarformanns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Guðný segir um ráðninguna:
„Sagafilm er kraftmikið fyrirtæki sem byggir á breiðum hóp metnaðarfulls hæfileikafólks. Hér ræður sköpunargleðin ríkjum og ég hlakka til að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem framundan eru með því frábæra fagfólki sem hér vinnur. Sjaldan, ef nokkurn tíma, hafa verið jafn stór og fjölbreytt verkefni verið í vinnslu og nú.”
Guðný er með MBA-gráðu frá San Diego State University og starfaði áður sem forstöðumaður á fjármálasviði Vodafone.
Þórhallur Gunnarsson sest í stjórn, Steinarr Logi Nesheim stýrir auglýsingaframleiðslu
Fleiri breytingar hafa verið gerðar á yfirstjórn Sagafilm. Þórhallur Gunnarsson hefur tekið sæti í stjórn fyrirtækisins, en auk þess hefur Steinarr Logi Nesheim tekið við stjórn auglýsingadeildar.
Þórhallur starfar sem framkvæmdastjóri sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hjá Sagafilm. Hann er með MA-gráðu í sjónvarpsþáttargerð frá University of London og býr yfir umfangsmikilli reynslu í dagskrárgerð bæði fyrir Stöð 2 og RÚV; hann var ritstjóri Kastljóss í fimm ár og dagskrárstjóri RÚV 2007 til 2010. Þórhallur hefur setið í framkvæmdastjórn Sagafilm frá árinu 2013.
Steinarr er fjölmiðlafræðingur að mennt, stundar MBA nám við Háskóla Íslands og hefur 15 ára reynslu á sviði verkefnastjórnunar og framleiðslu á sjónvarpsefni.
Stjórnarmönnum Sagafilm verður jafnframt fjölgað úr þremur í fjóra. Ragnar Agnarsson fráfarandi forstjóri, tekur við stjórnarfomennsku af Kjartani Þór Þórðarsyni sem verður meðstjórnandi ásamt Þórhalli Gunnarssyni, framkvæmdastjóra sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu Sagafilm sem kemur nýr inn í stjórn, eins og áður sagði. Fjórði stjórnarmaðurinn bætist í hópinn á næstu vikum.