spot_img

„Hrútar“ framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna

Hrútar-still 2 hrútarMeðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, ÍKSA, völdu kvikmyndina Hrúta sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Myndin keppir því fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli.

Kosningu lauk á miðnætti í gær. Hún fór fram rafrænt og var kosið á milli fimm íslenskra kvikmynda sem uppfylltu skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar.

Grímur Hákonarsonar leikstýrir Hrútum og skrifaði einnig handritið en aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson.

Hrútar hefur keppt til verðlauna á þremur kvikmyndahátíðum og unnið fern verðlaun þar á meðal til Un Certain Regard verðlaunanna á Cannes kvikmyndahátíðinni. Auk þess var Hrútar ein af þeim 10 myndum sem voru tilnefndar til LUX kvikmyndaverðlauna Evrópusambandsins 2015. Búið er að selja myndina út um allan heim og til allra Evrópulanda að undanskildu Rússlandi og Búlgaríu.

Hrútar er enn í sýningum í íslenskum kvikmyndahúsum og myndin er orðin aðsóknarmesta íslenska kvikmyndin það sem af er þessu ári. Í vetur fer hún í almennar sýningar í kvikmyndahúsum víða í Evrópu og eftir áramót í Bandaríkjunum.

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR