Ný heimildamynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Sjóndeildarhringur, verður heimsfrumsýnd á Toronto hátíðinni og Þrestir Rúnars Rúnarssonar á San Sebastian eins og Klapptré hefur þegar sagt frá. Fúsi, Vonarstræti og finnsk/íslenska myndin The Grump taka einnig þátt í hátíðum haustsins. Fastlega má búast við að tilkynnt verði um aðrar myndir og hátíðir innan skamms.
Sjóndeildarhringur hefur verið valin til þátttöku á TIFF Docs hluta Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto. sem fram fer 10.-20. september.
Sjóndeildarhringur fjallar um listmálarann Georg Guðna Hauksson, sem lést aðeins fimmtugur að aldri árið 2011. Á fyrstu einkasýningu hans í Nýlistasafninu í Reykjavík árið 1985 birtist einstök sýn á íslenskt landslag í fjallamyndum hans. Sýningin markaði upphafið að ferli Georgs Guðna sem frumkvöðuls í endurreisn landslagsmálverksins.
Sjóndeildarhring er stýrt af Friðrik Þór Friðrikssyni og Bergi Bernburg. Friðrik Þór framleiðir einnig myndina fyrir framleiðslufyrirtækið Sjóndeildarhring. Stjórn kvikmyndatöku og klipping er í höndum Bergs Bernburg og meðframleiðslufyrirtæki er hið danska ResearchGruppen. Myndin kemur í almennar sýningar á Íslandi haustið 2015.
Fúsi og Vonarstræti og finnska kvikmyndin The Grump, sem er íslensk minnihlutaframleiðsla, verða sýndar á alþjóðlegu norsku kvikmyndahátíðinni í Haugasundi, sem fer fram frá 15. – 21. ágúst. Allar munu þær taka þátt í Fokus Norden hluta hátíðarinnar.
Fúsi verður einnig lokamynd Sarajevo kvikmyndahátíðarinnar, sem fer fram í Sarajevo í Bosníu og Hersegóvínu 14.-22. ágúst. Dagur Kári og Gunnar Jónsson aðalleikari myndarinnar verða viðstaddir hátíðina og munu kynna myndina fyrir sýningu.