„Sjóndeildarhringur“ Friðriks Þórs til Toronto

horizon-sjóndeildarhringurNý heimildamynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Sjóndeildarhringur, verður heimsfrumsýnd á Toronto hátíðinni og Þrestir Rúnars Rúnarssonar á San Sebastian eins og Klapptré hefur þegar sagt frá. Fúsi, Vonarstræti og finnsk/íslenska myndin The Grump taka einnig þátt í hátíðum haustsins. Fastlega má búast við að tilkynnt verði um aðrar myndir og hátíðir innan skamms.

Sjóndeildarhringur hefur verið valin til þátttöku á TIFF Docs hluta Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto. sem fram fer 10.-20. september.

Sjóndeildarhringur fjallar um listmálarann Georg Guðna Hauksson, sem lést aðeins fimmtugur að aldri árið 2011. Á fyrstu einkasýningu hans í Nýlistasafninu í Reykjavík árið 1985 birtist einstök sýn á íslenskt landslag í fjallamyndum hans. Sýningin markaði upphafið að ferli Georgs Guðna sem frumkvöðuls í endurreisn landslagsmálverksins.

Sjóndeildarhring er stýrt af Friðrik Þór Friðrikssyni og Bergi Bernburg. Friðrik Þór framleiðir einnig myndina fyrir framleiðslufyrirtækið Sjóndeildarhring. Stjórn kvikmyndatöku og klipping er í höndum Bergs Bernburg og meðframleiðslufyrirtæki er hið danska ResearchGruppen. Myndin kemur í almennar sýningar á Íslandi haustið 2015.

Fúsi og Vonarstræti og finnska kvikmyndin The Grump, sem er íslensk minnihlutaframleiðsla, verða sýndar á alþjóðlegu norsku kvikmyndahátíðinni í Haugasundi, sem fer fram frá 15. – 21. ágúst. Allar munu þær taka þátt í Fokus Norden hluta hátíðarinnar.

Fúsi verður einnig lokamynd Sarajevo kvikmyndahátíðarinnar, sem fer fram í Sarajevo í Bosníu og Hersegóvínu 14.-22. ágúst. Dagur Kári og Gunnar Jónsson aðalleikari myndarinnar verða viðstaddir hátíðina og munu kynna myndina fyrir sýningu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR