Morgunblaðið um „Webcam“: Fjötrar, ást og örbirgð

Anna Hafþórsdóttir og Gunnar Helgason í Webcam.
Anna Hafþórsdóttir og Gunnar Helgason í Webcam.

Hjördís Stefánsdóttir hjá Morgunblaðinu skrifar um Webcam Sigurðar Antons Friðþjófssonar og gefur henni þrjár stjörnur og segir meðal annars: „Þegar á heildina er litið er myndin allt í senn frumleg, ögrandi og krefjandi án þess að vera meiðandi eða groddaraleg. Hún tekur á viðkvæmum málefnum og vekur áhorfendur til umhugsunar um firringu nútímans þar sem hlutverkaleikir og sýndartengsl avatara í netheimum eru farin að þjarma að og skáka nærandi og ástríkum tengslanetum ættingja og vina í raunheimum.“

Umsögnin fer hér á eftir með leyfi Hjördísar:

Ný brakandi fersk íslensk kvikmynd, Webcam, var frumsýnd fyrir skemmstu. Hún var unnin af hreinni ástríðu, án allra styrkja og innherjaraaðstoðar bransans af samhentum vinahópi ungs áhugafólks. Í fararbroddi voru uppistandarinn Sigurður Anton Friðþjófsson sem skrifaði handritið og leikstýrði og félagi hans Aron Bragi Baldursson sem mundaði tökuvélina.

Söguhetja myndarinnar, framhaldsskólaneminn Rósalind (Anna Hafþórsdóttir), er í leit að sjálfri sér, ástinni og samastað í lífinu. Eins og margir jafnaldrar sínir sækir hún skemmtanalífið stíft með bestu vinkonu sinni Agú (Telma Huld Jóhannesdóttir) en stefnulaus og lítt vandfýsin brókarsótt hennar undirstrikar þörfina fyrir viðurkenningu. Tilvera Rósalindar tekur stakkaskiptum eftir að hún kynnist strák með gægjuhneigð því í framhaldinu sér hún sóknarfæri í að bjóða upp á kynlífsþjónustu fyrir framan vefmyndavél í beinni útsendingu á netinu. Sú iðja verður fljótt að þráhyggjukenndri köllun og hún festist í ævintýralegum hlutverkaleikjum og baðar sig í gegndarlausri athygli netverja en sitt er hvort gæfa eða gjörvileiki því ekki veldur hver sem á heldur.

Nýtilfengið sjálfræði hennar virðist léttilega geta snúist upp í arðrænandi andhverfu sína hvenær sem er. Eins og margir sem ánetjast gagnvirkum hlutverkaleikjum í sýndarveruleika með tilbúin önnur sjálf sín eða avatara, reynist Rósalind erfitt að greina milli reyndar og blekkjandi upplifunar. Síversnandi kynlífsfíkn fjötrar hana einnig og í stað þess að fyllast heilbrigðu sjálfstrausti og finna sér verðuga lífsförunauta eykst rótleysi hennar og félagsleg einangrun. Stríluð ytri ásýndin og hliðruð sjálfsmyndin valda henni enn meiri innri örbirgð þannig að vinátta hennar við Agú, einu mannveruna sem hún tengist sterkum tilfinningaböndum, lendir eins og allt annað á hálum ís.

Þema myndarinnar er frumlegt og nálgunin á erindi við samtímann. Samfélag nútímans hefur ánetjast farsímatækninni, netinu og samfélagsmiðlunum af slíku offorsi að einstaklingar þess eiga stundum erfitt með náin persónuleg tengsl og bein tjáskipti. Þá virðist eðlilegt samhengi ástar og kynlífs einnig geta farið forgörðum og kynlíf orðið að innantómum gjaldmiðli í ímyndarsköpun.

Myndin státar af tveimur mjög áhugaverðum og margbrotnum kvenkyns aðalhetjum en slíkt heyrir til undantekninga í heimi kvikmyndanna. Það sem meira er þá er þessum persónum ljáð ljóstillífandi líf af alls ófeimnum leikkonum í sínum fyrstu stóru hlutverkum. Óhætt er að segja að frammistaða þeirra beri myndina uppi og að einlægur leikurinn bjargi henni frá því að geta talist klúr eða klámfengin.

Mikil ástríða liggur augljóslega að baki myndinni enda þarf töluverða atorku til að koma kvikmynd alla leið í bíóhús en stundum virðist óþarfa vafstur velkja söguna og hún líkjast meira samsettum þematengdum uppistandsatriðum en heildstæðri frásögn. Nokkrum senum hefði betur verið sleppt eins og þeim sem kynna óþarfa kynlegar aukapersónur til leiks. Karlpersónur myndarinnar eru einnig flestar skelþunnar, óáhugaverðar og jafnvel hreinlega furðulegar. Sumar línur þeirra eru fleygar á meðan aðrar falla kylliflatt eins og raus eins rekkjufélaga Rósalindar sem finnst viðeigandi að gantast með eðli hryðjuverkaárása strax eftir ástarleiki. Hugsanalega eiga karlpersónur að virðast litaðar af bjöguðu sjónarhorni Rósalindar en þær sterkustu standa henni næst, pabbi hennar (Gunnar Helgason) og meðleigjandinn (Júlí Heiðar Halldórsson).

Kvikmyndataka og eftirvinnsla er frekar hrá en virkar að mestu. Myndefni skröltandi tökuvélarinnar gæti á stöku stað gert áhorfendur hálfsjóveika líkt og í senu þar sem vinkonurnar þræða bakgarðastíga að næturlagi en þau áhrif ýta einnig undir efnisleg tengsl myndarinnar við fallvaltar tálsýnir sýndarveruleikans.

Þegar á heildina er litið er myndin allt í senn frumleg, ögrandi og krefjandi án þess að vera meiðandi eða groddaraleg. Hún tekur á viðkvæmum málefnum og vekur áhorfendur til umhugsunar um firringu nútímans þar sem hlutverkaleikir og sýndartengsl avatara í netheimum eru farin að þjarma að og skáka nærandi og ástríkum tengslanetum ættingja og vina í raunheimum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR