WIFT á Íslandi í samstarfi við RIFF og Kvikmyndaskóla Íslands stendur fyrir sumarnámskeiði í stuttmyndagerð 4.-18. ágúst fyrir stelpur á framhaldsskólaaldri. Þátttakendum verður skipt í tvo aldurshópa, 15-17 ára (fæddar 1998-2000) og 18-20 ára (fæddar 1995-1997). Á námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði kvikmyndagerðar og því lýkur með gerð stuttmyndar.
Myndirnar verða síðan sýndar á RIFF í haust en RIFF verður með sambærilegt námskeið á hátíðinni fyrir stelpur á grunnskólaaldri.
Sumarnámskeiðið verður haldið í húsakynnum Kvikmyndaskóla Íslands að Grensásvegi 1, og eru kennarar kvikmyndagerðarkonurnar Ása Helga Hjörleifsdóttir og Dögg Mósesdóttir. Námskeiðið skiptist í eftirfarandi kennslustundir/daga:
4. ágúst: Handritsgerð og myndræn frásögn.
6. ágúst: Leikstjórn og framleiðsla.
10. ágúst: Kennsla á myndavélar / tæknilegur undirbúningur fyrir tökur.
11., 12. og 13. ágúst: Tökur á stuttmyndum.
14., 17. og 18. ágúst: Klipp og önnur eftirvinnsla.
Engin reynsla af kvikmyndagerð nauðsynleg. Áhugasamar geta fengið frekari upplýsingar og skráð sig með því að senda tölvupóst á stelpurskjota@gmail.com. Tekið er við umsóknum meðan að pláss leyfir.