Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur 2015 við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Í spjalli við Morgunblaðið ræðir hún meðal annars væntanlega mynd sína Alma (áður Þá og þegar elskan) og upplýsir frekar um leikaraval sitt, en myndin fer í tökur í haust.
UPPFÆRT kl. 19:25: Kristín hlaut einnig í dag úr hendi forseta Íslands riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og kvikmyndagerðar.
Í viðtalinu, sem Silja Björk Huldudóttir tekur, segir Kristín meðal annars að Elma Stefanía Ágústsdóttir muni fara með aðalhlutverkið í myndinni og Kristbjörg Kjeld komi einnig við sögu ásamt frönsku leikkonunni Emmanuelle Riva eins og áður hefur verið greint frá.
Aðspurð hvað sé framundan hjá sér í listinni segir Kristín munu nýta árið til að undirbúa og leikstýra kvikmynd eftir eigin handriti sem nefnist Alma. „Alma þýðir sál. Stóru línurnar í myndinni eru sekt og sakleysi, glæpur og refsing, ástir og örlög,“ segir Kristín leyndardómsfull, en upplýsir þó að um samtímasögu sé að ræða. „Tökur hefjast í haust og munu eflaust standa fram í mars á næsta ári,“ segir Kristín og tekur fram að ef eftirvinnslan gangi vel verði hægt að frumsýna myndina haustið 2016. Innt eftir leikaravali upplýsir Kristín að Elma Stefanía Ágústsdóttir muni fara með titilhlutverkið, en Elma Stefanía fór með hlutverk Unnar í Segulsviði sem Kristín leikstýrði fyrr í vetur.
„Elma Stefanía er afburðaleikkona og ég vænti mjög mikils af henni í hlutverki Ölmu. Í myndinni leitar Alma til tveggja kvenna um nírætt sem búa í litlu sjávarþorp úti á landi,“ segir Kristín og upplýsir að með hlutverk eldri kvennanna tveggja fari Emmanuelle Riva og Kristbjörg Kjeld. „Ég heillaðist strax af Emmanuelle Riva í námi mínu úti þegar ég sá Hiroshima Mon Amour, sem er með stærri myndum kvikmyndasögunnar eftir handriti Marguerite Duras og í leikstjórn Alain Resnais. Síðan var hún í austurrísku myndinni Amour sem Michael Haneke leikstýrði, en myndin var tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna árið 2013,“ rifjar Kristín upp. Myndin var m.a. tilnefnd sem besta mynd ársins, Haneke sem leikstjóri ársins og Riva sem leikkona ársins í aðalhlutverki, en myndin var verðlaunuð sem besta erlenda mynd ársins.
„Ég hlakka óskaplega mikið til að vinna með Emmanuelle og Kristbjörgu, því það er svo spennandi að vinna með leikkonum sem búa yfir jafnmiklum þroska og þær. Ég hlakka svo til að sjá þær saman, því þær tvær eiga eftir að magna hvor aðra upp,“ segir Kristín, sem margoft hefur unnið með Kristbjörgu, m.a. leikstýrði hún henni í Strompleik, Utan gátta, Svörtum hundi prestsins og Karma fyrir fugla.
Sjá nánar hér: Leikstýrir Emmanuelle Riva – mbl.is