Blóðberg, kvikmynd Björns Hlyns Haraldssonar, kemur í kvikmyndahús þann 10. apríl en verður forsýnd á Stöð 2 á páskadag, 5. apríl.
Þetta er í annað sinn í íslenskri kvikmyndasögu sem kvikmynd er opinberuð með þessum hætti, en í ársbyrjun 2004 sýndi Hrafn Gunnlaugsson mynd sína Opinberun Hannesar í Háskólabíói eftir að hafa frumsýnd hana í Sjónvarpinu á nýársdag. Aðsókn reyndist afar lítil. Verður spennandi að sjá hvernig viðtökur almennings verða nú.
Stikla myndarinnar hefur nú verið opinberuð og má sjá hér að neðan.
Myndinni er lýst sem er íslenskri fjölskyldusögu, um leyndarmál og lygar, gleði, brostnar vonir og krísur hins daglega lífs.
Björn Hlynur Haraldsson skrifar handrit og leikstýrir. Með helstu hlutverk fara Hilmar Jónsson, Harpa Arnardóttir, Hilmir Jensson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. Framleiðendur eru Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir fyrir Vesturport. Lilja Ósk Snorradóttir hjá Pegasus er meðframleiðandi.
Leiðrétting 15.4.2015: Ranghermt var í þessari frétt að Blóðberg sé fyrsta myndin sem frumsýnd er í sjónvarpi og fari þaðan í bíó. Þetta hefur nú verið leiðrétt.