Ekkert dregið undan í „Salóme“

Dóttir og móðir: Yrsa Roca Fannberg og Salóme Fannberg.
Dóttir og móðir: Yrsa Roca Fannberg og Salóme Fannberg.

Heimildamyndin Salóme eftir Yrsu Rocu Fannberg hlaut á dögunum Menningarverðlaun DV í flokki kvikmynda. DV fjallar um myndina, birtir umsögn dómnefndar og ræðir við Yrsu.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

„Salomé er persónuleg heimildamynd sem Yrsa Roca Fannberg gerði um móður sína, Salóme E. Fannberg veflistakonu. Yrsa er sjálf á bak við myndavélina og við fylgjumst með samskiptum mæðgnanna á nærgöngulan en jafnframt einlægan máta. Það þarf mikið hugrekki til að kvikmynda eigið tilfinningalíf með þessum hætti og er ekkert dregið undan. Myndin er fyrsta heimildamynd leikstjórans en er þrátt fyrir það afar þroskuð saga um samband móður og dóttur.“

Yrsa Roca útskýrði tilurð myndarinnar í viðtali við DV 7. nóvember 2014.

„Að vissu leyti var ég kannski hrædd um að það yrði of seint, að mamma mín myndi deyja eða eitthvað. Þegar ég var að hjálpa henni að pakka þegar hún var að flytja til Íslands 2007 þá sá ég svo mikið af hlutum sem hún hafði gert og þá rann upp fyrir mér að hún væri listamaður. Þá rann það líka upp fyrir mér að ég væri að feta í sömu spor þó að ég hefði aldrei hugsað mér það og hefði aldrei viðurkennt áður,“ sagði Yrsa.

Myndin fór á annan veg en Yrsa ætlaði, frekar en að vera hlutlæg mynd af listakonunni Salóme Fannberg tók verkið eigin stefnu og má segja að lokaafurðin fjalli fyrst og fremst um tvær manneskjur, móður og dóttur, og áhrifin sem kvikmyndatökuvélin hefur á samskipti þeirra.„Upphaflega ætlaði ég að fjalla um listina og ævi hennar. En mamma mín er ekkert mjög gjörn á að svara spurningum og henni fannst ég ekki hafa undirbúið mig nógu vel,“ sagði Yrsa. „Með því að myndavél sé á staðnum breytast hlutirnir. Hún er kannski miklu opnari gagnvart mér þegar myndavélin er ekki þarna. Þarna er ég í rauninni mjög ómórölsk og er tilbúin að tala um hvað sem, en það er hún sem stendur upp fyrir sjálfa sig. Eins og móðir sem verður einhvern veginn að ala mig upp, útskýra hvað er rétt og rangt. Og sem betur fer, þegar maður horfir á þetta eftir á, er hún alveg með þetta á hreinu. Ég sé að ég hefði alveg verið til í að selja skrattanum ömmu mína í tökunum.“

Sjá nánar hér: Ekkert dregið undan – DV.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR