spot_img

Hver er besta íslenska bíómyndin?

Aðstandendur Stockfish hátíðarinnar spurðu nokkra valinkunna kvikmyndaspekúlanta hvaða mynd þeim þætti sú besta í íslenskri kvikmyndasögu. Svörin eru hér að neðan.

Uppátækið er í tengslum við gagnrýnendamálþing í hádeginu næstkomandi þriðjudag og er jafnframt skorað á gesti Stockfish að segja sína skoðun á hvaða mynd þeim finnst besta mynd íslenskrar kvikmyndasögu, með örstuttum rökstuðningi. Hægt er að skrifa á Facebook síðu Stockfish eða senda skilaboð á info@stockfishfestival.is og verða niðurstöður birtar eftir helgi

Tvær myndir fengu meiri stuðning en aðrar, ein með þrjú atkvæði og önnur með tvö – en alls nefndu þessir tólf bíóspekúlantar átta mismunandi myndir – sú elsta var meira en hálfrar aldar gömul en sú yngsta aðeins fárra ára gömul. Og hér fyrir neðan eru niðurstöðurnar:

Börn náttúrunnar

Children_of_Nature_Still5

„Íslensk kvikmyndagerð var ekki söm eftir og gætir áhrifa hennar enn. Bestu myndir þessa áratugar, Eldfjall og Á annan veg, sækja til að mynda báðar markvisst í brunn hennar — en með ólíkum hætti.“

Björn Ægir Norðfjörð, kvikmyndafræðingur

Börn náttúrunnar er ekki gallalaus mynd en galdur hennar er miklu stærri en gallarnir og hefur ekki verið toppaður, hvorki fyrr né síðar. Hún fangar einhvern kjarna þess að vera Íslendingur, kjarna sem virðist vera að molna upp en er varðveittur í þessari bíómynd.“

Árni Þórarinsson, rithöfundur og fyrrum kvikmyndagagnrýnandi

Börn náttúrunnar hefur ekki enn verið toppuð. Tokyo Story Íslands. Þrátt fyrir að Friðrik Þór nái ekki sömu hæðum og Ozu fjallar hann á svipaðan hátt um óumflýjanlega sorg lífsins á næman og áhrifaríkan hátt. Sú íslenska mynd sem kemst næst því að standa jafnfætis því besta úr evrópskum kvikmyndum.“

Jóhann Helgi Heiðdal, heimspekingur og bíórýnir á Starafugli

Sódóma Reykjavík

Remote_Control_Still1

„Það er nánast ómögulegt að velja bestu íslensku bíómyndina. Börn náttúrunnar, Vonarstræti, Englar alheimsins og Málmhaus koma allar upp í hugann. En Sódóma Reykjavík stendur einhvern veginn alltaf upp úr. Það virðist eitthvað hafa gerst á tökustað, það er eins og allt hafi smolllið. Myndin gengur fullkomlega upp. Stórkostlegt handrit, ógleymanlegir karakterar og frábær tónlist. Svona mynd verður aldrei gerð aftur. 10 af 10 mögulegum.“

Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður á RÚV

„Mér finnst Sódóma Reykjavík vera besta íslenska bíómyndin einfaldlega því hún er langskemmtilegasta íslenska mynd sem ég hef séð og því mér finnst hún takast meira og minna fullkomnlega að gera það sem hún ætlar sér. Hún er fyndin og sniðug og frumleg og eftirminnileg, með litríkum og lifandi persónum. Leikstjórinn Óskar Jónasson leikur sér skemmtilega með formið og blandar Hollywood klisjum við íslenskt umhverfi á mjög snjallan hátt. Myndin er líka flott tekin og klippt og full af frábærri tónlist En umfram allt er hún stútfull af ívitnanlegum setningum og situr því í manni lengi eftir á. Sódóma Reykjavík er mynd sem hægt er að horfa á aftur og aftur, er það ekki eðli góðra mynda?“

Atli Sigurjónsson, kvikmyndagagnrýnandi hjá Klapptré.

79 af stöðinni

1-79-gogo- 79afStodinni

„Andrúmsloftið í myndinni er það sem situr eftir í mér, drungi og fegurð á sama tíma og svo auðvitað dásamlegir leikarar og frábært tónlist og svo er myndin góð heimild um eftirstríðsárin.“

Dögg Mósesdóttir kvikmyndaleikstjóri og formaður WIFT (Konur í kvikmyndum og sjónvarpi)

Með allt á hreinu

On_Top_still2

„Það er af mörgum góðum myndum að taka og í raun ómögulegt að nefna bestu myndina.

Margar koma upp í hugann, t.d. Börn náttúrunnar, Nói albínói, Sódóma Reykjavík, Englar alheimsins ….. en sú sem mér datt fyrst í hug og er líklega sérdeilis ófrumlegt val hjá mér, er Með allt á hreinu. Hún eykur vellíðan, húmorinn er dásamlegur, tónlistin frábær og lagatextarnir magnaðir. „Fram þær reiddu hálfmána og kex og astraltertur sex“ o.s.frv.

Mynd sem ég get alltaf horft á, leiðist aldrei og syng með í öllum lögum. Og ekki má gleyma Grýlunum, tvær eðalhljómsveitir mætast þarna, Stuðmenn og Grýlurnar/Gærurnar og blandan er fullkomin. Frasarnir koma á færibandi og þannig mætti áfram telja.

Þannig að ég segi Með allt á hreinu og hananú!“

Helgi Snær Sigurðsson, menningarblaðamaður og kvikmyndarýnir á Morgunblaðinu

Benjamín dúfa

BenjaminDove4

„Ég er sannfærð um að við höfum ekki séð bestu íslensku kvikmyndina ennþá, kvikmyndasagan okkar verður sterkari með hverju árinu sem líður. Til að nefna eina mynd sem skarar framúr ákvað ég þó að útiloka kvikmyndir frá síðasta áratug, maður veit aldrei hvernig bíómyndir eldast. Sú sem varð fyrir valinu er mynd Gísla Snæs Erlingssonar, Benjamín dúfa, sem gerð er eftir bók Friðriks Erlingssonar. Ljúfsár og falleg mynd sem hefur allt til að bera sem prýðir bestu bíómyndirnar, sterkt handrit, góðan leik, fantafína myndatöku og frábæra tónlist. Allt myndar þetta þétta stemmingu, kvikmyndir eru svo mikið púsluspil og hér virkar heildarmyndin. Fyrst og fremst er galdurinn þó sá að hún snertir mann djúpt og eftir að maður hefur einu sinni séð Benjamín dúfu gleymir maður henni aldrei. Þær myndir sem ég hefði líka viljað nefna eru Nói albínói og Börn náttúrunnar.“

Sigríður Pétursdóttir, kvikmyndablaðamaður á Djöflaeyjunni

Mávahlátur

The_Seagulls_Laughter_Still2

„Mjög vel heppnuð aðlögun á skáldsögu; gamansöm glæpasaga, stormasöm ástarsaga og eftirminnileg þroskasaga. Séríslenskt period-drama sem er sjarmerandi afmarkað í tíma og rúmi og skartar mjög eftirminnilegum persónum. Mjög vel unnin tæknilega, jafnt í tökum, eftirvinnslu og sjónrænum umbúnaði. Leikurinn er enn fremur framúrskarandi og leikstjórn sömuleiðis.“

Hjördís Stefánsdóttir, bókmenntafræðingur og fyrrverandi gagnrýnandi á Morgunblaðinu

101 ReykjavíkHamLifandiDauðir

101 Reykjavík / Ham – lifandi dauðir

“Að mínu mati er 101 Reykjavík besta íslenska kvikmyndin. Handritið er frábært, leikstjórn og klipping fáguð og fumlaus. Tónlistin undirstrikar ögrandi og skoplega undirtóna myndarinnar og sviðsmyndin er flott. Leikstíllinn er afslappaður en með slagkraft, og leikararnir hrista allir af sér Þjóðleikhússtílinn í samleiknum við Victoriu Abril. Í flokki heimildarmynda er Ham – lifandi dauðir í uppáhaldi, sígild eins og bandið sjálft.”

Heiða Jóhannsdóttir, aðjunkt í kvikmyndafræði við HÍ

Englar alheimsins

Englar alheimsins

„Englar alheimsins er að mínu mati besta íslenska kvikmyndin. Hún er vel leikin og leikstýrð, og það er ávallt stutt milli hláturs og gráturs í henni. Senan þar sem hestarnir hlaupa í fjöru og sá skjótti fellur niður er mér mjög minnistæð og rétt eins og í bókinni, leggur senan línuna fyrir það sem koma skal. Það er aðeins 15 ár síðan myndin var frumsýnd, en ég held að hún komi til með að skora hátt á listum yfir bestu íslensku kvikmyndirnar um ókomna tíð enda mögnuð saga Einars Más, sem Friðriki Þór tókst listalega vel að koma til skila á hvíta tjaldinu.“

Brynja Dögg Friðriksdóttir, heimildamyndaleikstjóri og kynningarfulltrúi Reykjavík Shorts & Docs

Rokland

Rokland

„Rokland er ekki endilega fyrsta hrunmyndin en hún gæti vel verið sú besta, nokkuð sem kom mér örlítið á óvart því myndin hafði farið fyrir ofan garð og neðan hjá bæði gagnrýnendum og áhorfendum. Það sem hins vegar blasir við þegar byrjað er að horfa er lifandi, fumlaus og flæðandi frásagnarheimur – og að auki er hin hefðbundna flóra handskolslegra og óþarfa glappaskota heldur er allt bara, ja, allt hefur sinn flotta takt. Þá sýnir Laddi stórleik, Steinn Ármann er brilljant (og hann er í myndinni í þrjár mínútur), Ólafur Darri er ótrúlegur, og handritið er þétt, birtingarmyndin af landsbyggðarplássinu er laus við kynlega kvisti, þetta er grámyglulegt og ömurlegt og allt undir hælnum á einhverjum nútíma goða sem á kvóta eða banka, og fornbókmenntaarfurinn hefur ekki verið notaður svona skemmtilega áður í íslenskri kvikmynd (ég er að vísu ekki viss um að hann hafi nokkurn tíma verið notaður skemmtilega, nema þegar Friðrik Þór kvikmyndaði söguna um það þegar Njáll var brenndur). Það er hvorki farsæll né ljóðrænn endir, allir eru samanvöðlaðar andlegar vandamálahrúgur, og ekki á fyndinn hátt, nokkuð sem mér finnst afar ferskt og skemmtilegt að sjá í samhengi við harðahlaupin sem svo margir í bransanum eru og hafa verið á undan óþægilegum og truflandi hliðum mannlífsins. Háð og gagnrýni skáldaðra kvikmyndaverka í útrásinni reis til dæmis lang hæst í sjónvarpsþáttum þar sem Keflavíkugöngugarpur, auðvaldshatari (kommi sum sé) með fimm háskólagráður, hvers fyrirheitna land var Svíðþjóð, var sýnt hvar Davíð keypti ölið. Eins og allir vita var þessi persónugerð/hugmyndafræði mjög aktúell og virk félagsleg stærð á Íslandi árið 2007. Rokland hittir hins vegar í mark með svo margt, Hallgrími Helgasyni vissulega að þakka að miklu leyti, en aðlögunin nær að draga það besta úr bókinni, skapa sjálfstæða heild, og er besta íslenska mynd sem ég man eftir.“

Björn Þór Vilhjálmsson, greinarformaður kvikmyndafræði og bókmenntagagnrýnandi í Víðsjá

Sjá nánar hér: Besta bíómynd íslenskrar kvikmyndasögu – Stockfish European Film Festival.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR