Kvikmyndahátíðin Stockfish hefst 19. febrúar

stockfish-logo-og-BP-exteriorKvikmyndahátíðin Stockfish European Film Festival in Reykjavík verður haldin dagana 19. febrúar – 1. mars í Bíó Paradís. Sýndar verða á fjórða tug nýrra og nýlegra alþjóðlegra kvikmynda, auk þess sem boðið verður uppá ýmiskonar viðburði sem flestir snúa á einn eða annan hátt að tengslamyndun íslenskra og erlendra kvikmyndagerðarmanna.

Myndir

Meðal helstu mynda sem sýndar verða má nefna Wild Tales frá Argentínu, Tangerines frá Eistlandi/Georgíu og Ida frá Póllandi en allar eru tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta erlenda mynd. Þá verður nýjasta mynd hins aldna meistara Jean-Luc Godard, Goodbye to Language, sýnd í þrívídd. Myndaúrvalið er hægt að kynna sér hér.

Rachi Bouchareb sækir Stockfish heim.
Rachid Bouchareb sækir Stockfish heim.

Gestir

Ýmsir góðir gestir sækja hátíðina heim. Má þar nefna fransk/alsírska leikstjórann Rachid Bouchareb sem þrisvar sinnum hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna. Breska leikkonan Brenda Blethyn, sem gert hefur tvær myndir með Bouchareb, kemur einnig. Þrír norskir leikstjórar, Unni Straume, Bent Hamer og Eskil Vogt koma með nýjustu myndir sínar og íslenski leikarinn Sverrir Guðnason, sem á dögunum hlaut sænsku Guldbaggen verðlaunin í annað sinn, kemur með sitt nýjasta verk, Flugparken, sem jafnframt er opnunarmynd hátíðarinnar.

Sigurður Sverrir Pálsson myndar Land og syni sumarið 1979.
Sigurður Sverrir Pálsson myndar Land og syni sumarið 1979.

Þá verður kvikmyndatökustjórinn Sigurður Sverrir Pálsson heiðraður sérstaklega á hátíðinni. Sigurður Sverrir er einn frumherja íslenskrar kvikmyndagerðar og hefur kvikmyndað fleiri íslenskar bíómyndir en nokkur annar, eða 15 talsins. Þrjár mynda hans, Land og synir, Tár úr steini og Kaldaljós, verða sýndar á hátíðinni og mun Sigurður Sverrir ræða myndirnar og sitja fyrir svörum eftir sýningu allra þeirra.

Viðburðir

Meðal þeirra viðburða sem bjóðast á hátíðinni er fyrirlestur bandaríska kvikmyndaframleiðandans Christine Vachon, sem kallast „From Shoestrings to the Oscars“, í Bíó Paradís laugardaginn 28. febrúar klukkan 15. Þar fjallar hún um þær hindranir sem framleiðendur óháðra mynda þurfa að yfirstíga í kvikmyndalandslagi nútímans.

Þá mun Pavel Jech, skólastjóri hins virta tékkneska kvikmyndaskóla FAMU, standa fyrir masterclass í sal 2 í Bíó Paradís þann 20. febrúar og síðan vinnustofu dagana 21.-22. febrúar en hún er sérstaklega ætluð fyrir framleiðendur og leikstjóra sem eru að undirbúa sínu fyrstu eða aðra mynd í fullri lengd.

Kvikmyndin Merchants of Doubt, sem fjallar um afneitunariðnaðinn í Bandaríkjunum verður sýnd undir merkjum Earth101 verkefnisins. Myndin fjallar um hvernig hópur einstaklinga kostaður af bandarískum stórfyrirtækjum hefur á síðustu áratugum markvisst unnið að því að villa umræðuna um ýmis mikilvæg málefni, allt frá tóbaksreykingum til ógnarinnar af loftslagsbreytingum. Erik Conway, sem skrifaði bókina sem myndin er byggð á, mun sitja fyrir svörum eftir sýningu hennar ásamt öðrum sérfræðingum. Loftslagsteymi Alþjóðabankans tekur þátt í ráðstefnunni, en þau fara fyrir Connect4Climate (C4C) verkefni bankans. Sigurmyndirnar í alþjóðlegri stuttmyndakeppni Alþjóðabankans verða jafnframt sýndar á Stockfish og munu sérfræðingar sitja fyrir svörum á eftir. Nokkrir gesta Earth101 munu halda opinberan fyrirlestur 1. mars næstkomandi í stofu 105 á Háskólatorgi klukkan 12–16. Meðal fyrirlesara verða: Gavin Anthony Schmidt, forstöðumaður GISS, loftslagsstofnunar NASA, og Kevin Anderson, forstöðumaður Tyndal-stofnunarinnar í Manchester, ásamt Erik Conway, vísindasagnfræðingi frá Caltech.

Um Stockfish

Þótt þetta sé fyrsta hátíðin sem haldin er með þessu nafni á hátíðin sér dýpri rætur – en með hátíðinni er Kvikmyndahátíð Reykjavíkur endurvakin undir nýju nafni, en Kvikmyndahátíð í Reykjavík var síðast haldin árið 2001 og var upphaflega sett á laggirnar árið 1978.

Hátíðin er samstarfsverkefni allra hagsmunaaðila í kvikmyndageiranum á Íslandi. Aðstandendur segja markmiðið með hinni endurvöktu hátíð að þjóna samfélaginu sem hún sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR