The Hollywood Reporter um „Fúsa“: Létt nálgun á þungt viðfangsefni

Ilmur Kristjánsdóttir og Gunnar Jónsson í Fúsa eftir Dag Kára.
Ilmur Kristjánsdóttir og Gunnar Jónsson í Fúsa eftir Dag Kára.

Stephen Dalton hjá The Hollywood Reporter skrifar frá Berlín um Fúsa Dags Kára og segir hana hlýlega og fyndna svipmynd af risastórum utanveltumanni með jafnvel enn stærra hjarta, létta nálgun á þungt viðfangsefni sem sneiði hjá myrkrinu, dýptinni og flókinni sálfræðistúdíu.

Dalton vitnar í síðustu mynd Dags, The Good Heart (ranglega kölluð The Golden Heart) og segir hana hafa verið þrúgaða af væmni þar sem samlíðan hafi birst sem yfirlæti.

Sá veikleiki er einnig ofurlítið sýnilegur í þessari mynd, sem er að öðru leyti heillandi og öðruvísi rómantísk kómedía, en þó meiri kómedía en rómantík þegar upp er staðið.

Dalton segir að hjartahlýr tónninn og lágstemmdur húmorinn muni gera myndinni kleift að ferðast utan sinna heimaslóða. Hann segir myndina eiga hátíðarúnt vísan og að hún gæti fengið dreifingu á jaðarmörkuðum, sé gott orðspor leikstjórans um víða veröld haft í huga. Þá sé framleiðandinn, Hollywood hasarmyndaleikstjórinn Baltasar Kormákur, ein best þekkta útflutningsafurð Íslands á sviði kvikmynda og gæti það hjálpað til við að selja myndina frekar.

Dagur Kári fær plús fyrir að forðast hefðbundinn góðan endi á þessari óhefðbundnu rómantísku kómedíu. Í staðinn býður hann uppá svolítið upplífgandi útkomu sem kemur yfir sem manneskjuleg málamiðlun. En heilt yfir forðast myndin myrkur, dýpt og flóknar sálfræðipælingar. Þessa léttavigtarsvipmynd af frekar þungu viðfangsefni er auðvelt að láta sér líka við og þetta er góð viðbót við höfundarverk leikstjórans, en of sæt og blíð til að skilja mikið eftir.

Sjá nánar hér: ‘Virgin Mountain’: Berlin Review

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR