Truenorth leitar nú meðframleiðenda á samframleiðslumarkaðinum í Berlín á fyrirhugaðri kvikmynd Óskars Jónassonar, Fyrir framan annað fólk.
Framleiðslufyrirtækið Nepenthe hefur þegar slegist í hópinn og einnig hafa þýskir framleiðendur sýnt áhuga.
Þetta kemur fram í Screen.
Þetta er rómantísk kómedía sem Óskar skrifar ásamt Kristjáni Þórði Hrafnssyni leikskáldi. Sagan er um feiminn náunga sem reynir að sjarmera konu með því að herma eftir yfirmanni sínum. Sambandið lendir á hálum ís þegar eftirhermurnar taka völdin.
Með helstu hlutverk fara Svandís Dóra Einarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Hilmir Snær Guðnason og Hafdís Helga Helgadóttir.
Myndin, sem mun kosta um 200 milljónir króna, hefur þegar fengið vilyrði frá Kvikmyndamiðstöð. Sena mun dreifa myndinni í lok ársins.
“Ísland er líklega ekki hið týpíska land fyrir rómantíska kómedíu,“
segir Óskar við Screen en bætir við:
„…en Reykjavík er reyndar mjög rómantísk borg. Og rómantíkin er allstaðar.“
Sjá nánar hér: Truenorth navigates to Jonasson’s Others | News | Screen.