Petri Kemppinen framkvæmdastjóri Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins er í viðtali við Cineuropa þar sem hann ræðir um áherslur sjóðsins í þeirri stöðu sem nú er uppi í norrænum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði.
Í viðtalinu segist Kemppinen munu leggja áherslu á tvo meginpóla; fjármögnun stærri verkefna og víða dreifingu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Á honum má skilja að listrænar kvikmyndir, sem lengi hafa verið framlínan í norrænni kvikmyndagerð, séu á undanhaldi en þær verði þó að styðja áfram. Jafnframt sé lögð aukin áhersla á að styðja við gerð bálkamynda (genre) samanber verkefnið Nordic Genre Boost þar sem markmiðið er að gera myndir sem höfða til yngri aldurshópa.
Þá bendir hann á að sjónvarpsefni fái sífellt aukið vægi hjá sjóðnum og að nú sé svo komið að um 40% af fjármagni sjóðsins fari til leikinna sjónvarpsþáttaraða. Hann bendir á að slíkt efni nái mun betur til almennings en kvikmyndirnar og að ekki sé hjá því komist að taka tillit til þess.
Kemppinen klykkir út með því að lýsa því yfir að norrænar bíómyndir séu í óvissuástandi.
„Hvað handritaskrif varðar þá velti ég því fyrir mér hvað verði um bíómyndir í framtíðinni þar sem svo margir ungir handritshöfundar fara beint í leikið sjónvarpsefni. Mér skilst að reyndir kvikmyndaleikstjórar hafi einnig áhuga á þeim möguleikum sem felast í þáttaröðum og því aukna svigrúmi sem þær veita í frásögn, en við ættum ekki að gleyma venjulegri kvikmyndagerð.“
Sjá nánar hér: Petri Kemppinen • CEO of the Nordisk Film and TV Fund – Cineuropa.