Óli Prik er persónuleg heimildarmynd um handboltamanninn Ólaf Stefánsson og þau tímamót þegar hann snýr aftur heim eftir 17 ár í atvinnumennsku og tekur að sér að þjálfa meistaraflokk Vals. Myndin verður frumsýnd í kvikmyndahúsum þann 6. febrúar.
Ólafur Stefánsson er lifandi goðsögn í handboltaheiminum og það ríkir mikil eftirvænting þegar hann snýr aftur til gamla uppeldisfélagsins, en Óla er margt til lista lagt annað en að spila handbolta og ferðalagið tekur óvænta stefnu.
Árni Sveinsson stjórnar gerð myndarinnar, en meðal fyrri mynda hans eru Í skóm drekans, Með hangandi hendi og Backyard. Árni fylgdi Óla eins og skugginn í eitt og hálft ár og varð vitni að sigrum og ósigrum í lífi hans og starfi.
Grímar Jónsson framleiðir fyrir hönd Netop Films. Hann hefur nýlokið tökum á kvikmyndinni Hrútum í leikstjórn Gríms Hákonarsonar, en hann hefur áður framleitt m.a. myndirnar Rafmögnuð Reykjavík, Smáfuglar og Brim.
Tónlist í myndinni er í höndum strákanna í Mono Town.
Áhugasömum er bent á Facebook síðu myndarinnar www.facebook.com/oliprikfilm en þar verður hægt að sjá brot úr myndinni ásamt efni sem ekki er að finna í endanlegri útgáfu hennar.