Kvikmyndahátíðin Stockfish European Film Festival verður haldin í Bíó Paradís dagana 19. febrúar til 1. mars 2015. Að hátíðinni standa fagfélög í kvikmyndagerð á Íslandi. Hátíðin óskar eftir íslenskum stuttmyndum til þátttöku í keppninni Sprettfiskur.
Stuttmyndirnar mega vera að hámarki 30 mínútur og ekki meira en ársgamlar. Hátíðin gerir þá kröfu að myndirnar hafi ekki verið sýndar opinberlega og að þær verði frumsýndar á hátíðinni. Aðeins íslenskar stuttmyndir koma til greina.
Skilafrestur er til 19. janúar og verða fimm myndir valdar á hátíðina sem mun síðan keppa um verðlaunin Sprettfiskur 2015. Allar frekari upplýsingar á stockfishfestival.is.
Í fréttatilkynningu frá Stockfish segir:
Stockfish er hátíð kvikmyndaunnenda og byggir á grunni Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem stofnuð var 1978. Markmið Stockfish er að sýna það besta í listrænni kvikmyndagerð í heiminum auk þess að efla samtal almennings og fagstétta um kvikmyndagerðina sjálfa. Þannig vonast aðstandendur hátíðarinnar til að styrkja íslenska kvikmyndagerð enn frekar í sessi.
Um þrjátíu kvikmyndir í fullri lengd verða sýndar á hátíðinni auk valinna verka kvikmyndagerðarmanna sem boðið verður til landsins á hina endurvöktu hátíð.
Á meðal gesta verða þekktir verðlaunaleikstjórar og aðrir alþjóðlegir kvikmyndagerðarmenn. Sérstök áhersla verður lögð á tengslamyndun íslenskra og erlendra kvikmyndagerðarmanna.
Markmiðið með hinni endurvöktu hátíð er að þjóna samfélaginu sem hún sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands.
Meðal samstarfsaðila Stockfish European Film Festival eru Reykjavíkurborg og Evrópustofa.
Hátíðin verður í samstarfi við EDDUNA – íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin en Eddan 2015 verður haldin í Silfurbergi í Hörpu laugardaginn 21. febrúar.
Í stjórn Stockfish hátíðarinnar eru:
Formaður: Friðrik Þór Friðriksson, f.h. Samtaka kvikmyndaleikstjóra
Bergstenn Björgúlfsson, f.h. Félags íslenskra kvikmyndatökustjóra
Birna Hafstein, f.h. Félags íslenskra leikara
Dögg Mósesdóttir, f.h. Samtaka kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum
Guðrún Edda Þórhannesdóttir, f.h. Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda
Sjón, f.h. Félag leikskálda og handritshöfunda