Gunnar Theódór Eggertsson fjallar um heimildamyndina Salóme í pistli á Víðsjá á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Hann segir viðfangsefnið „skemmtilegan fýlupúka“ og að eftir sitji frumleg og forvitnileg heimildamynd.
Gunnar segir meðal annars:
Myndin er afar hrá og samanstendur fyrst og fremst af upptökum heima hjá Salóme, þar sem mæðgurnar ræða saman, eða reyna að ræða saman. Fókusinn er alfarið á móðurina, dóttirin er alltaf á bak við vélina.
Miðað við lýsingar í dagskrá átti ég von á hefðbundnari heimildamynd, þar sem farið væri út í baksögu aðalpersónunnar, ferli hennar gerð skil, og farið nákvmælega út í það hvernig hún „hætti að búa til list til að geta sinnt lífinu“, eins og segir í lýsingu – en Salóme er afar óhefðbundin, frumleg og fyrst og fremst persónuleg heimildamynd, sem snýst alfarið um samtölin á milli persónanna tveggja.
Við fáum litla sem enga baksögu, fyrir utan nokkrar glefsur úr samtölunum, og að miklu leyti snýst myndin um sambandsleysið í samtölunum, um aðalpersónu sem vill ekki láta fjalla um sig, og spennuna þeirra á milli.
Salóme sjálf er mjög grípandi sem viðfangsefni, en engu að síður hefði hver sem er ekki getað sest niður og gert áhugaverða heimildamynd bara úr einföldum viðtalsupptökum.
Það að leikstjórinn sé dóttir hennar gefur myndinni einstakan blæ, opinská og oft beinskeitt samtöl, og myndin verður jafnt að hugleiðingu um heimildamyndaformið og gerð sjálfrar myndarinnar, rétt eins og hún fjallar um listakonuna sjálfa, því Salóme neitar ítrekað að gefa Yrsu það sem hún biður um og reynir jafnvel að taka stjórnina úr höndum leikstjórans á köflum. Enn fremur vill hún ekkert tjá sig um sína eigin list, og ég hef séð heimildamyndir áður um listamenn sem neita að tjá sig um list sína eða ljá henni merkingu – David Lynch er gott dæmi – þar sem myndin verður einfaldlega leiðinleg til lengdar, en sú er ekki raunin hér.
Að vissu leyti má lýsa Salóme sem heimildamynd sem kemst ekki úr sporunum, því viðfangsefnið vill ekki leyfa henni það, og leikstjórinn getur alveg verið jafnþrjósk og móðirin.Salóme er heimildamynd sem er búin til úr efni sem hefði verið klippt út úr hefðbundinni portrett-mynd og útkoman er heillandi. Að vissu leyti er myndin einhæf og endurtekningasöm, en á móti kemur að Salóme sjálf er svo skemmtilegur fýlupúki fyrir framan myndavélina að maður missir aldrei áhugann. Myndin er líka í styttri kantinum, eða hefðbundinni sjónvarpsheimildamyndalengd, rétt tæpur klukkutími.
Að áhorfi loknu vakna fjölmargar spurningar – hver voru veikindin? Hvað varð um listina? Hvaða minningar eru raunverulegar, hverjum á ég að trúa? Þetta eru spurningar sem leikstjórinn vill líka fá svör við, en viðfangsefnið neitar ítrekað að svara, og færir þannig miðjuna á myndinni inn á óþekktar og undarlegar slóðir. Þetta sérstaka samspil listakvennanna tveggja gerir að verkum að myndin situr eftir sem frumleg og forvitnileg heimildamynd.
Sjá nánar hér: Dætur og foreldri | RÚV.