Líkt og Klapptré sagði frá í sumar stefnir allt í að þetta ár verði eitt besta ár hvað aðsókn varðar á íslenskar kvikmyndir síðan formlegar mælingar hófust 1996. Nú þegar tveir mánuðir eru eftir af árinu hafa tæplega 124.000 manns séð þær átta kvikmyndir sem boðið hefur verið uppá þetta árið og nokkrar þeirra eiga töluvert inni.
Góðar líkur eru á að heildaraðsókn fari yfir 150.000 manns þegar árið er úti, en meiri spurning hvort náist að toppa árið 2000, þegar 170.590 manns komu á sex íslenskar kvikmyndir.
Þetta er í kjölfar mikils barlóms sitt hvoru megin við síðustu áramót vegna aðsóknar á myndir 2013, sem var langt undir meðallagi síðustu ára. Sjá nánar um það hér.
Hér að neðan má sjá lista yfir aðsóknina til og með 2. nóvember (athugið að aðeins er talin aðsóknin á *Hross í oss á yfirstandandi ári – alls sáu hana 13.333 manns í fyrra).
Heildaraðsókn á íslenskar kvikmyndir 1. janúar til og með 2. nóvember 2014:
Heiti myndar | Dreifing | Frumsýnd | Aðsókn |
---|---|---|---|
Vonarstræti | Sena | 7. maí | 47.982 |
Afinn | Samfilm | 25. september | 13.959 |
Harrý og Heimir: Morð eru til alls fyrst | Sena | 11.apríl | 12.233 |
Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum | Samfilm | 31. október | 12.225 |
Lífsleikni Gillz | Samfilm | 7. febrúar | 12.165 |
París norðursins | Sena | 5. september | 11.468 |
Borgríki 2: Blóð hraustra manna | Myndform | 17. október | 9.379 |
Hross í oss* | Sena | September 2013 | 2.141 (alls 15.474) |
Grafir og bein | Sena | 31. október | 2.128 |
SAMTALS: | 123.680 |