Hjálmtýr Heiðdal hefur sent frá sér stiklu heimildamyndarinnar Svartihnjúkur-stríðssaga úr Eyrarsveit sem hann vinnur nú að.
Myndin segir frá árekstri íslenskrar sveitakyrrðar og hrikaleik heimstyrjaldarinnar síðari. Í hermannagrafreit Fossvogskirkjugarðs standa sex legsteinar. En grafirnar sex geyma aðeins líkamsleifar fjögurra breskra flugmanna sem fórust á Snæfellsnesi í nóvember 1941. Skýrslur breska flughersins eru fáorðar um þetta sérkennilega mál. En í Eyrarsveit á Snæfellsnesi hafa menn í áratugi sagt sögur af örlögum þeirra sem saknað er.
Íslenskir bændur voru rifnir úr hversdagslegum búverkum til þess að fara á fjöll að leita að týndri herflugvél. Lýsingar þeirra á hrikalegri aðkomu og líkburði hafa lifað meðal sveitunga þeirra fram á þennan dag. Margvíslegar sögusagnir hafa spunnist um afdrif bresku flugmannanna og við kynnumst því hvernig íslensk þjóðtrú leitast við að útskýra ógnirnar og afleiðingar þeirra.
Karl Smári Hreinsson og Hjálmtýr Heiðdal eru höfundar handrits en Hjálmtýr stjórnar gerð myndarinnar sem sýnd verður síðar á árinu.