Guðmundur Arnar Guðmundsson frumsýndi nýjustu stuttmynd sína Ártún á RIFF kvikmyndahátíðinni um helgina, en myndinni hefur nú þegar verið boðið á 10 alþjóðlegar kvikmyndahátíðir í haust. Ártún verður Evrópu frumsýnd í október á „A“ kvikmyndahátíðinni í Varsjá og stuttu síðar frumsýnd í Ameríku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago sem fagnar fimmtugsafmæli sínu þetta árið.
Þess má geta að fyrri stuttmynd Guðmundar, Hvalfjörður, vann til 15 alþjóðlegra verðlauna á síðasta ári, þar á meðal á Cannes og er tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðalaunanna 2014 sem veitt verða næstkomandi desember.
Ártún fjallar um ungan strák sem langar að upplifa sinn fyrsta koss en ekkert gengur í litla þorpinu þar sem hann býr. Bestu vinir hans segja frá stelpum í borginni sem fara í vímu og verða lauslátar við að reykja sígarettur. Hann á erfitt með að trúa því en ákveður að fara með þeim í bæinn og sjá hvað gerist.
Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrir og skrifar handritið að Ártúni. Framleiðendur eru Anton Máni Svansson, Jacob Oliver Krarup, Darin Mailand-Mercado og Guðmundur Arnar Guðmundsson. Meðframleiðandi er Rúnar Rúnarsson og Sagafilm er meðframleiðslufyrirtæki. Aðalhlutverk myndarinnar eru í höndum ungra krakka sem eru að stíga sín fyrstu skref í leiklistinni: Flóki Haraldsson, Viktór Leó Gíslason, Daníel Óskar Jóhannesson, Jónína Þórdís Karlsdóttir og Heiða Ósk Ólafsdóttir
Guðmundur vinnur nú að sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd sem nefnist Hjartasteinn en fyrr á árinu hlaut hann þann heiður að vera valinn með verkefnið í leikstjórnarsmiðju Cannes kvikmyndahátíðarinnar. Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi og fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inní unglingsárin og uppgötva ástina hvor á sinn máta. Myndin er framleidd af Join Motion Pictures í samvinnu við SF film í Danmörku.