Frestur til að sækja um á Skjaldborg rennur út 1. maí

Herbert Sveinbjörnsson hlaut Einarinn, áhorfendaverðlaun Skjaldborgar, í fyrra fyrir Ösku.
Herbert Sveinbjörnsson hlaut Einarinn, áhorfendaverðlaun Skjaldborgar, í fyrra fyrir Ösku.

Klapptré hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá aðstandendum Skjaldborgarhátíðarinnar:

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda – verður haldin um hvítasunnuhelgina næstkomandi, 6. – 9. júní. Hátíðin mun að vanda fara fram í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði en þetta er í 8. sinn sem hátíðin verður haldin.

skjaldborg 2014 logoHátíðinni hefur þegar borist fjöldi spennandi titla og allt útlit fyrir sérlega spennandi dagskrá í ár. Hins vegar er enn opið fyrir innsendingar þar sem umsóknarfresturinn rennur út þann 1. maí. Ef þú liggur á mynd skaltu ekki hika við að senda hana inn. Allar upplýsingar er að finna á vef hátíðarinnar.

Dagskráin verður gerð opinber um miðjan maí og áhugavert verður að sjá hver mun hreppa Einarinn – áhorfendaverðlaun hátíðarinnar – því nú þegar er orðið ljóst að samkeppnin verður eitilhörð. Þá verður fljótlega ljóstrað upp um heiðursgest hátíðarinnar í ár, en um er að ræða mjög stórt nafn í alþjóðlegri heimildamyndagerð.

Áhugafólki um heimildarmyndagerð og/eða almennt góða stemmningu er bent á að fylgjast vel með á heimasíðu hátíðarinnar og fara að huga að ferðalaginu vestur. Að sjálfsögðu verður plokkarinn, fiskiveislan í Sjóræningjahúsinu og hið löðrandi hressa dansiball á sínum stað.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR