Fimm mynda bálkur Erlends Sveinssonar, Draumurinn um veginn, verður sýndur í Sjónvarpinu nú yfir páskana.
Þessi heimildamyndabálkur fjallar um pílagrímsgöngu rithöfundarins Thors Vilhjálmssonar til Santiago de Compostela á Norður-Vestur Spáni. Thor gengur inn í heim pílagrímavegarins og aðlagast honum eftir því sem á gönguna líður. Thor var áttræður þegar hann gekk þessa 800 kílómetra leið árið 2005 en hann lést 2. mars árið 2011.
Með pílagrímsgöngu sinni og skýrgreiningu á sjálfum sér sem menningarpílagrími lætur Thor Vilhjálmsson, einn helsti brautryðjandi nútímaskáldsögunnar á Íslandi, 40 ára draum sinn rætast um að ganga hinn forna 800 km langa pílagrímaveg til heilags Jakobs eftir endilöngum Norður-Spáni, og það á árinu sem hann verður áttræður. Með því sannar hann að það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast. Í upphafi ferðar er hann fullur löngunar um að fá vitneskju um hvað muni gerast innra með honum á göngunni þar sem hann á í vændum samneyti við pílagríma og samræður við íbúa héraðanna sem leiðin liggur um.
Fullyrt er að vitund Evrópubúa fyrir sameiginlegum rótum sínum eigi rætur að rekja til pílagrímaleiða Evrópu á miðöldum enda hefur menningararfleifð og landslag leiðarinnar djúp áhrif á Thor. Hann skynjar hvernig nútíð og fortíð rennur saman á veginum enda koma í huga hans íslenskir miðaldatextar nátengdir veginum jafnhliða því að honum finnst á stundum eins og hann sé staddur inni í atriðum úr eigin bókarköflum.
Um kvikmyndatöku sá Sigurður Sverrir Pálsson. Stjórnandi og framleiðandi er Erlendur Sveinsson.
Draumurinn um veginn
- 1. hluti skírdag kl. 15:30
- 2. hluti föstudaginn langa kl. 15:30
- 3. hluti laugardag kl. 15:25
- 4. hluti páskadag kl. 15:35
- 5. hluti annan páskadag kl. 15:55
Minnt er á SARPINN á vef RÚV þar sem hægt er að horfa á þættina eftir hentugleika.