Aðstandendur Kvikmyndahátíðar í Reykjavík kynntu hina væntanlegu hátíð í Bíó Paradís í dag. Hátíðin, sem er nú endurvakin eftir 13 ára hlé, fer fram dagana 12.-21. september næstkomandi.
Stjórn hátíðarinnar, sem er sjálfseignarstofnun (þ.e. ekki rekin í hagnaðarskyni), skipa Friðrik Þór Friðriksson, Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Birna Hafstein, Dögg Mósesdóttir, Bergsteinn Björgúlfsson og Sjón. Framkvæmdastjórn skipa Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Heimili kvikmyndanna ses.; Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri Bíó Paradísar og Guðmundur E. Finnsson, viðburðastjóri Kvikmyndahátíðar í Reykjavík.
Áherslur í vali mynda verða á gæði umfram magn og verður boðið uppá rjómann af þeim myndum sem hlotið hafa verðlaun og viðurkenningar á stórum hátíðum. Áhorfendaverðlaun verða veitt og einnig verða þekktir leikstjórar heiðraðir.
Sérstök áhersla á tengslamyndun og samstarfsfleti
Aðspurð um hvað aðgreindi þessa hátíð frá RIFF sögðu aðstandendur að auk hnitmiðaðrar dagskrársetningar verði lögð sérstök áhersla á tengslamyndun alþjóðlegra kvikmyndagerðarmanna við bæði innlenda kvikmyndagerðarmenn og almenning, þar sem fram fari samræða og fræðsla um kvikmyndir og kvikmyndagerð auk þess sem kannaðir verða fletir á hverskyns samstarfi um gerð kvikmynda. Sérstök kynningarmessa um kvikmyndaframleiðslu, tökustaði kvikmynda og þjónustaðila á Íslandi verður haldin á hátíðinni. Þar gefst tækifæri til að kynna fyrir erlendum blaðamönnum og gestum hvaða þjónusta er í boði hér á landi við kvikmyndagerð. Messan verður haldin í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands og kvikmyndaframleiðendur á Íslandi. Miðað verður að því að miðla og kynna íslenskt hæfileikafólk í kvikmyndagerð, skapa tækifæri til samstarfs og samframleiðslu á kvikmyndaverkefnum og efla tengsl íslenskra kvikmyndagerðarmanna við alþjóðlegan kvikmyndaiðnað.
Að auki benti Sjón, einn stjórnarmanna hátíðarinnar, á að það væri pláss fyrir fleiri en eina kvikmyndahátíð í Reykjavík, líkt og gerðist með tónlistarhátíðir. Þá er og hugmyndin að sýna hluta dagskrár í kvikmyndahúsum víða um land meðan á hátíð stendur og þannig færa hana til sem flestra landsmanna. Um leið væri hugmyndin að gestir hátíðarinnar myndu einnig heimsækja staði utan höfuðborgarinnar.
Stjórn var spurð hversvegna hátíðinni væri valinn tími rétt á undan RIFF og hvort ekki væri hætta á að hátíðirnar rynnu saman í huga almennings. Sjón sagðist treysta almenningi til að greina þar á milli en bætti við að bíóþyrstir myndu einfaldlega halda áfram að fara í bíó; „veislan er orðin stærri,“ sagði hann.
Íslandsstofa og Höfuðborgarstofa samstarfsaðilar
Hátíðin verður haldin í samstarfi við Íslandsstofu og Höfuðborgarstofu. Sú fyrrnefnda mun koma sérstaklega að kynningu á íslenskri kvikmyndagerð og kvikmyndum gagnvart erlendum aðilum og í samstarfi við Film in Iceland verkefnið, sem rekið er á vegum Íslandsstofu. Sú síðarnefnda mun sjá um viðburði fyrir erlenda blaðamenn á meðan á hátíð stendur.
Forsaga og vinnulag Kvikmyndahátíðar í Reykjavík
Fram kemur í fréttatilkynningu að Kvikmyndahátíð í Reykjavík hafi upphaflega verið rekin af fagfélögum kvikmyndagerðarmanna á árunum 1996-2001. Hún tók við af Kvikmyndahátíð Listahátíðar sem starfrækt var annað hvert ár frá 1978.
Hátíðin mun starfa eftir reglum FIAPF – Alþjóðabandalags samtaka kvikmyndaframleiðenda sem hefur eftirlit með kvikmyndahátíðum með það að markmiði að tryggja hagsmuni kvikmyndaframleiðenda og dreifingar- og söluaðila í meðferð þeirra kvikmyndaverka á kvikmyndahátíðum. Þar er helst er að telja rekstur og stjórnun, aðferðir við val mynda á hátíðir, alþjóðlega skipaðar dómnefndir, þjónustu við blaða- og fréttamenn, öryggi mynda og sýningagæði, náið samstarf við kvikmyndagreinina og fleira.FIAPF er eftirlitsaðili með öllum helstu kvikmyndahátíðum heimsins, eins og hátíðunum í Cannes, Berlín, Toronto, Karlovy Vary, Feneyjum.
Auk þessa verða strangar öryggisráðstafanir gerðar á meðan á hátíð stendur, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir þjófnað og/eða ólöglega afritun kvikmynda sem sýndar verða.
Vefur hátíðarinnar er hér.