Benedikt Árnason látinn

Benedikt Árnason (brot úr plakati kvikmyndarinnar Okkar á milli.
Benedikt Árnason (brot úr plakati kvikmyndarinnar Okkar á milli.

Benedikt Örn Árnason leikari og leikstjóri er látinn, 82 ára að aldri.

Benedikt fæddist 1931 og ólst upp í Reykjavík. Hann lauk námi í leiklist við Central School of Speech and Drama í London 1954.

Hann hóf feril sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur en réðst síðan til Þjóðleikhússins. Leikstjórnarferill hans í leikhúsinu hófst á síðari hluta sjötta áratugsins. Hann var einn helsti leikstjóri Þjóðleikhússins um áratugaskeið og setti upp á sjötta tug verka á 34 ára tímabili.

Benedikt leikstýrði mörgum sjónvarpsleikritum á upphafsárum Sjónvarpsins, meðal annars Jóni gamla eftir Matthías Johannessen, sem var fyrsta leikritið sem Sjónvarpið tók upp. Þá var hann aðstoðarleikstjóri í nokkrum kvikmyndum m.a. Rauðu skikkjunni og 79 af stöðinni, en það mun meðal annars hafa verið fyrir hans tilverknað og milligöngu að Edda-film og ASA-film frá Danmörku ákváðu að vinna síðarnefnda verkefnið sem markaði tímamót á sínum tíma í gerð íslenskra kvikmynda.

Benedikt lék nokkur hlutverk í kvikmyndum og sjónvarpi og þá ekki síst í myndum Hrafns Gunnlaugssonar; aðalhlutverkin í sjónvarpsmyndinni Vandarhögg og einnig bíómynd Hrafns, Okkar á milli. Þá lék hann smærri hlutverk í Myrkrahöfðingjanum, Skilaboðum til Söndru, Desember og Skrapp út, sem og í sjónvarpsþáttaröðunum Allir litir hafsins eru kaldir, Nonna og Manna, Hæ Gosa og Rétti 2.

Vandarhögg eftir Hrafn Gunnlaugsson er til sýnis á YouTube, sett þar inn af leikstjóranum sjálfum. Hana má sjá hér að neðan.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR