„Hrútar“ Gríms Hákonarsonar tekin upp í haust

Grímur Hákonarson leikstjóri.
Grímur Hákonarson leikstjóri.

Grímur Hákonarson, sem á dögunum hlaut Edduverðlaun fyrir heimildamyndina Hvellur, stefnir á upptökur á nýrri mynd sinni, Hrútar, í haust.

Myndin segir af þeim bræðrum Gumma og Kidda sem eru sauðfjárbændur á sjötugsaldri. Þeir búa hlið við hlið í afskekktum dal og hrútar frá þeim þykja með þeim bestu á landinu. En þeir bræður hafa ekki talast við í fjóra áratugi. Dag einn greinist riðuveiki hjá Kidda og í kjölfarið neyðast þeir Gummi og Kiddi til þess að hefja samskipti á ný eftir 40 ár.

Mýri og Bólstaður í Bárðardal er sögusvið Hrúta eftir Grím Hákonarson sem tekin verður upp í haust.
Mýri og Bólstaður í Bárðardal er sögusvið Hrúta eftir Grím Hákonarson sem tekin verður upp í haust.

Upptökur munu fara fram í Þingeyjarsýslu, nánar tiltekið á Mýri og Bólstað en þeir bæir standa hlið við hlið, alveg syðst í Bárðardal að vestan.

Vefurinn 641.is, þar sem sagðar eru fréttir úr Þingeyjarsýslu, hefur eftir Grími að myndin sé klassískt drama með lúmskum húmor en hafi enga tengingu við Mýri eða Bólstað. “Það var myndræn ákvörðun að taka myndina þarna upp. Bæirnir standa mjög nálægt hvor öðrum, frekar langt er til næstu bæja og umhverfið er fagurt,” segir Grímur við 641.is.

Með aðalhlutverkin fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson og munu tökur fara fram í ágúst og í nóvember. Grímur framleiðir ásamt Grímari Jónssyni. Verkefnið hefur hlotið vilyrði frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Sjá nánar hér: 641.is — Hrútar – Íslensk kvikmynd tekin upp í Bárðardal í haust.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR