Þessi eru tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir kvikmyndir

Nemendur og starfsfólk Kvikmyndaskóla Íslands.
Nemendur og starfsfólk Kvikmyndaskóla Íslands.

DV hefur opinberað tilnefningar til menningarverðlauna sinna. Í flokki kvikmynda hljóta tilnefningu Kvikmyndaskóli Íslands, Ragnar Bragason, starfsfólk RÚV, Elísabet Ronaldsdóttir og Marteinn Sigurgeirsson. Dómnefnd Menningarverðlauna DV fyrir kvikmyndir skipa Marzibil Sæmundsdóttir kvikmyndagerðarkona (formaður), Dögg Mósesdóttir kvikmyndagerðarkona og Þorsteinn Gunnar Bjarnason leikari og leikstjóri.

Dómnefnd hefur þetta að segja um tilnefnda:

Kvikmyndaskóli Íslands

Kvikmyndaskóli Íslands hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Skólinn hefur fengið faglega vottun og gæðastimpil fá alþjóðlegum samtökum kvikmyndaskóla. Árangurinn skólans sést kannski best á því að á sl. ári áttu nemendur skólans um eða yfir helming þeirra íslensku stuttmynda sem voru valdar á íslenskar kvikmyndahátíðir svo sem RIFF, Shorts and Docs og Northern Wave.

Fjölmargir útskrifaðir nemendur skólans starfa nú af fullum krafti víðs vegar í íslenskum kvikmyndaiðnaði og eru mikilvægur hluti af framþróun þessarar vaxandi greinar. Kvikmyndaskóli Íslands gefur einnig fjölmörgu kvikmyndagerðarfólki tækifæri til að miðla þekkingu sinni áfram í kennslu sem er ómetanlegt fyrir framtíð kvikmyndagerðar á Íslandi.

Ragnar Bragason.
Ragnar Bragason.

Ragnar Bragason

Ragnar Bragason leikstjóri hefur sýnt að hann er ekki bara farsæll og hæfileikaríkur leikstjóri heldur er hann líka einn ötulasti baráttumaður kvikmyndalistarinnar á Íslandi. Ragnar hefur fyrir löngu sýnt fram á fjölhæfni sína sem leikstjóri og ber af einstök nálgun hans í að vinna með leikurum sem skilar sér ótvírætt á hvíta tjaldið, auk þess sem hann hefur lagt sérstaka áherslu á að skapa áhugaverð kvenhlutverk sem skortur er á. Ragnar hefur verið framarlega þegar á reynir í starfsgreininni og hvatt til samstöðu milli fólks í kvikmyndagerð.

RÚV húsiðStarfsfólk RÚV

Starfsfólk RÚV hefur sýnt svo ekki verður um villst að það starfar meira af metnaði og hugsjón en nokkru öðru. Þrátt fyrir að stórt skarð hafi höggvið í raðir starfsmanna RÚV sl. haust hafa þeir lagt sig jafnvel enn harðar fram. Gæði dagskrárefnis hjá RÚV var allsráðandi á sl. ári, fjölbreytt og metnaðarfullt að langstærstum hluta.

Elísabet Ronaldsdóttir.
Elísabet Ronaldsdóttir.

Elísabet Ronaldsdóttir

Elísabet er í hópi stofnenda Wift og hefur unnið óeigngjarnt starf í þágu kvenna innan kvikmyndagreinarinnar og er óþrjótandi baráttukona þegar kemur að íslenskri kvikmyndagerð: Elísabet er í dag einn virtasti og eftirsóttasti klippari þjóðarinnar sem á árinu réðst í stór verkefni á erlendri grundu.

Marteinn Sigurgeirsson.
Marteinn Sigurgeirsson.

Marteinn Sigurgeirsson

Marteinn er eitt besta geymda leyndarmál íslenskrar kvikmyndagerðar en hann hefur verið umsjónarmaður og aðaldriffjöður Myndvers Grunnskólanna síðustu þrjá áratugina. Marteinn hefur sinnt myndverinu af mikilli alúð og hugsjón og átt stóran þátt í auknu myndlæsi grunnskólanema, auk þess sem hann hefur opnað fyrir þeim heim kvikmyndatungumálsins og hefur lagt sérstaka áherslu á að hvetja stúlkur til þátttöku. Margir af okkar þekktustu kvikmyndagerðarmönnum hafa stigið sín fyrstu skref í Myndverinu hjá Marteini og greinin í heild á honum mikið að þakka.

Sjá nánar hér: Menningarverðlaun DV 2013: Tilnefningarnar allar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR