Greining | Skerðing eða aukning? Veltur á útfærslunni

útvarpshúsið_efstaleiti1Mikið veltur á hvernig hugmynd menntamálaráðherra um breytingar á fjármögnun RÚV verður útfærð. Þannig er haft eftir Páli Magnússyni útvarpsstjóra í Morgunblaðinu í gær að „ef þessi skerðing sem fyrirhuguð er á auglýsinga- og kostunartekjum Ríkisútvarpsins verður öll tekin til baka þá vantar enn um 100 milljónir uppá að bætt sé sú ákvörðun að skila RÚV ekki útvarpsgjaldinu að fullu. Það er þó auðvitað betra en ekkert.“

Þessi frétt á vef RÚV bendir þó til þess að ráðherra hugsi sér aðeins að taka hluta þeirrar skerðingar til baka. Þar segir m.a.:

Skerðing á auglýsingatekjum í lögunum er þríþætt og var metin á tæplega 400 milljónir króna. Þyngst, í krónum talið, vegur bann við kostun einstakra dagskrárliða, skerðing vegna hennar er metin 175 milljónir króna. Næst á eftir kemur bann við að rjúfa dagskrárliði með auglýsingum, það er metið á 150 milljónir króna. Að síðustu kemur að auglýsingar megi aðeins standa í átta mínútur á hverri klukkustund, í stað tólf mínútna áður, sú stytting er metin á 70 milljónir króna. Illugi segir að tillaga sín snúi að því að fjölga leyfilegum auglýsingamínútum aftur. Nákvæm útfærsla liggur ekki fyrir.

Illugi segir að 5-7% hagræðingarkrafan á RÚV myndi ekki minnka við breytinguna. „Og það getur vel verið að þetta verði til aukinnar hagræðingar, menn verða bara að sjá það. En þetta er ekki til þess að draga úr hagræðingarkröfunni, ég er hér að breyta um áherslur“, segir menntamálaráðherra.

Það er því ljóst að verði hugmyndir ráðherra framkvæmdar með þessum hætti verður um að ræða enn frekari skerðingu á fjármögnun RÚV en nemur þeim 7% niðurskurði sem Páll hefur áður talað um.

Að auki mun svigrúm RÚV til að kaupa efni af sjálfstæðum framleiðendum skerðast enn frekar, því samkvæmt þjónustusamningi er RÚV uppálagt að verja 6% af þjónustutekjum sínum frá ríkinu til kaupa á slíku efni. Skerðing framlags til RÚV uppá 215 mkr. ætti því að leiða til að næstum 13 mkr. minna fari í slík kaup á næsta ári.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR