Rúmenskar kvikmyndir hafa farið með himinskautum undanfarin ár og fengið mikið lof og prís fyrir áleitna nálgun og sterkar sýnir. Í tilefni Rúmenskra menningardaga verður dagskrá með rúmenskum kvikmyndum í Bíó Paradís 10.-12. október.
Hæst ber alþjóðlega frumsýningu á hinni splunkunýju I’m an Old Communist Hag að leikstjóranum Stere Gulea viðstöddum. Þá verða einnig sýndar myndirnar Of Snails and Men eftir Tudor Giurgiu og Child’s Pose – Kvöl eftir Călin Peter Netzer sem hlaut Gullbjörninn á síðustu Berlínarhátíð. Eftir sýningu þeirrar myndar svarar aðalleikkonan, Luminita Gheorghiu, spurningum áhorfenda.
Dagskráin er sem hér segir:
10. október kl. 20:
Child’s Pose – Kvöl | Spurt og svarað með aðalleikkonu myndarinnar, Luminita Gheorghiu að sýningu lokinni.
Myndin segir sögu Corneliu, stjórnsamrar móður sem sér sér leik á borði til að ná stjórn á fullorðnum syni sínum eftir að hann er ákærður fyrir manndráp. Myndin var frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín þar sem hún hlaut hinn virta Gullbjörn, aðalverðlaun hátíðarinnar, fyrr á þessu ári.
11. október kl. 20:
Of Snails and Men
Myndin er byggð á sannri sögu. Hún fjallar um verksmiðju í litlum bæ, þar sem nýjir eigendur fyrirhuga að nýta hana fyrir annan rekstur og því eru fjöldauppsagnir yfirvofandi. Til þess að bjarga verksmiðjunni, þá þurfa starfsmennirnir að tryggja 150.000 dollara til þess að kaupa hana sjálfir. Einn þeirra kemur með þá hugmynd að fara í heldur óvenjulega fjáröflun, þ.e. að safna fé með því að selja sæði til sæðisbanka. Myndinni hefur verið líkt við Með fullri reisn (e. The Full Monty), en um er að ræða sprenghlægilega mynd sem engin ætti að láta fram hjá sér fara.
12. október kl. 20:
I’m an Old Communist Hag | Spurt og svarað með leikstjóranum Stere Gulea á eftir sýningu
Alþjóðleg frumsýning á einni nýjustu kvikmynd frá Rúmeníu. Myndin fjallar um Emiliu, sextíu ára gamla konu sem lifir friðsömu lífi með eiginmanni sínum Tucu, í litlum bæ í Rúmeníu. Parið verður yfir sig hrifið þegar dóttir þeirra hringir í þau frá Kanada, þar sem hún tilkynnir þeim það að hún muni heimsækja þau ásamt amerískum kærasta sínum. Emilia, sem er fræg fyrir að lifa eftir kommúnískri nostalgíu, er á sama tíma beðin um að taka þátt í heimildamynd sem fjallar um þjóðhátíðardaginn 23. ágúst, sem var þjóðhátíðardagur rúmena fyrir byltinguna 1989. Það sem átti að verða skemmtileg fjölskylduheimsókn dótturinnar snýst allt í einu um mjög rúmanskar aðstæður, þar sem kynslóðabilið kemur afar vel í ljós.
Sjá nánar hér: Rúmenskar kvikmyndasýningar í Bíó Paradís.