Viðhorf | Forsendubrestur íslenskrar kvikmyndagerðar

Grímur Hákonarson birtir hugleiðingar sínar um stöðuna í íslenskri kvikmyndagerð á Vísi í dag. Greinin birtist einnig hér með leyfi höfundar.[divider scroll_text=“Grein Gríms:“]

Grímur Hákonarson leikstjóri.
Grímur Hákonarson leikstjóri.

Íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur farið í gegnum miklar sveiflur á undanförnum árum. Á kvikmyndamáli væri hægt að kalla þetta „tilfinningarússíbana“. Árið 2010 voru framlög ríkisins til kvikmynda skorin niður um 35%, sem var mesti niðurskurður sem nokkur grein þurfti að taka á sig eftir hrunið.

Síðan þá hafa kvikmyndagerðarmenn háð langa og stranga baráttu fyrir leiðréttingu og viðurkenningu á gildi kvikmyndagerðar fyrir samfélagið. Sýnt hefur verið fram á með ítarlegum skýrslum og greinargerðum að hver króna sem sett er í kvikmyndagerð skilar sér margfalt til baka í ríkiskassann, m.a. vegna þess að styrkur frá Kvikmyndamiðstöð Íslands tryggir aðgengi að erlendu fjármagni. Auk efnahagslegra verðmæta skapar greinin menningarleg verðmæti og styrkir sjálfsmynd okkar sem þjóðar.

Þessi langa barátta virtist ætla að skila árangri því um síðustu áramót ákvað fráfarandi ríkisstjórn að hækka framlög til kvikmynda um 470 milljónir, sem var rúmlega tvöföldun á fyrri upphæð. Í kjölfarið má segja að nýtt tímabil hafi hafist í íslenskri kvikmyndagerð. Farið var í mikla vinnu við að endurskoða úthlutunarreglur Kvikmyndamiðstöðvar og laga umhverfi kvikmyndagerðarmanna að þessum breyttu forsendum.

[quote align=“right“ color=“#999999″]“Hvaða atvinnugrein þolir það að vera skorin niður um 42%? Og það er ekki einu sinni hægt að kenna hruninu um! Þurfa kvikmyndagerðarmenn að búa við það í framíðinni að í hvert skipti sem ný ríkisstjórn kemst til valda eigi þeir von á slátrun?“[/quote] Framlög til kvikmyndaverka sem höfðu staðið í stað í áraraðir voru hækkuð og mörg ný verkefni sett í gang. Ný kvikmyndafyrirtæki urðu til og fólk sem var komið hálfa leiðina til Noregs ákvað að snúa aftur heim. Almenn bjartsýni ríkti í geiranum og talað var um að nú væri „nýtt kvikmyndavor“ í fæðingu.

Sturtað niður

En nú, níu mánuðum síðar, hefur kvikmyndavorið verið tekið með keisaraskurði af Bjarna Benediktssyni og sturtað niður í klósettið. Við erum að tala um 42% niðurskurð sem hlýtur að vera Íslandsmet! Hvaða atvinnugrein þolir það að vera skorin niður um 42%? Og það er ekki einu sinni hægt að kenna hruninu um! Þurfa kvikmyndagerðarmenn að búa við það í framíðinni að í hvert skipti sem ný ríkisstjórn kemst til valda eigi þeir von á slátrun?

Það er dálítið merkilegt að þrátt fyrir þessar miklu sveiflur og þrátt fyrir alla orkuna sem kvikmyndagerðarmenn hafa eytt í að leiðrétta hlut sinn hefur íslenskum kvikmyndum sjaldan gengið jafn vel. Í síðustu viku var Benedikt Erlingsson valinn „besti nýi leikstjórinn“ á virtri kvikmyndahátíð í San Sebastian fyrir kvikmynd sína Hross í oss. Ólafur Darri var valinn besti leikarinn á Karlovy Vary fyrir XL og stuttmyndin Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson fékk dómnefndarverðlaun í Cannes.

Íslenskar kvikmyndir eru valdar inn á virtar hátíðir og vekja athygli úti um allan heim, sem skilar sér í gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins. En það sem er merkilegast við þennan árangur er að íslensku kvikmyndirnar eru gerðar fyrir margfalt lægri fjárhæðir en erlendu keppinautarnir. Hæfileikarnir eru til staðar þó að fjármagnið vanti. Með 42% niðurskurðinum minnka líkurnar á því að þessir hæfileikar fái að vaxa og dafna.

Það eru tveir flokkar sem sitja í ríkisstjórn. Annar flokkurinn hefur talað digurbarkalega um það að efla skuli íslenska kvikmyndagerð. Á landsfundi flokksins í febrúar var samþykkt svohljóðandi ályktun: „Efla þarf Kvikmyndasjóð Íslands og kanna þarf með hvaða hætti hægt er að greiða enn frekar fyrir en nú er að erlendir kvikmyndaframleiðendur sjái sér hag í því að taka upp kvikmyndir sínar hérlendis.“ Ef eitthvað er að marka stefnu Framsóknarflokksins ætti hann tafarlaust að leiðrétta þann forsendubrest sem hefur orðið í íslenskri kvikmyndagerð.

Sjá einnig: Vísir – Forsendubrestur íslenskrar kvikmyndagerðar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR