Viðhorf | Tom Cruise og Ben Stiller á fjárlögum

Haukur Már Helgason kvikmyndagerðarmaður og heimspekingur mun reglulega skrifa fyrir Klapptré ýmiskonar pistla um kvikmyndir og kvikmyndagerð. Hér er hans fyrsta grein, sem einnig birtist á bloggi hans OK EDEN.

Ríkisstyrktur Ben Stiller í The Secret Life of Walter Mitty, sem mynduð var að hluta hér á landi sumarið 2012.
Ríkisstyrktur Ben Stiller í The Secret Life of Walter Mitty, sem mynduð var að hluta hér á landi sumarið 2012.

Ég hef ekki alveg forsendur til að rýna í eða átta mig á þeim liðum fjárlaga sem snúa að kvikmyndagerð eða öðrum listgreinum en geri ráð fyrir að fjölmiðlar munu skerpa sýn okkar á næstu dögum. Fallið er frá áformum um viðbótarframlag til Kvikmyndasjóðs upp á 470 milljónir, en staðið við áður umsamda hækkun um 70 milljónir. Er þetta skýrt með þeim orðum að „áætlanir um tekjur sem fjármagna áttu átlunina, sérstakt veiðigjald á auðlindaarð sjávarútvegsins“ og fleira hafi „ekki reynst byggðar á nægilega traustum grunni.“ Kvikmyndasafnið lifir. Hvað þetta þýðir í reynd, hversu mikið fagið hafði reitt sig á þetta viðbótarfjármagn, munu aðrir áreiðanlega koma orðum að á næstu dögum.

Hins vegar – og þetta eru ekki ný tíðindi heldur staðreynd um fjárlög síðustu ára að þessum splunkunýju fjárlögum meðtöldum – er merkilegt að fjárhæð iðnaðarráðuneytisins til „endurgreiðslu“ vegna kostnaðar við kvikmyndagerð er hærri en fjárframlög m&m til kvikmyndagerðar. Þessi endurgreiðsla er ástæða þess að Tom Cruise og Ben Stiller hafa vanið komur sínar til landsins. Og þeir allir. Íslenska ríkið borgar þeim pening, töluvert mikinn pening, fyrir að taka myndir af íslenskum fjöllum. Á næsta ári er gert ráð fyrir 837 milljónum í slíkar endurgreiðslur. Kvikmyndasjóður, sá sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn leita í, fær hins vegar 625 milljónir.

Endurgreiðslurnar til Cruise og Stillers heyra ekki undir mennta- og menningarmálaráðuneytið heldur iðnaðar, vegna þess að þær eru hugsaðar til uppbyggingar á atvinnustarfsemi, kvikmyndaiðnaði, og um leið liður í áætlun Íslandsstofu um ímyndarsköpun landsins. Að fjöllin sjáist. Að Tom Cruise segist í viðtölum hrífast af landi og þjóð. Á milli taugaáfalla. Eitthvað í þá veruna. Allir græða. Ef til vill er þetta mjög skynsamlegt frá viðskiptasjónarmiðum, ef fólk er sátt við að líta á landið sem fyrirtæki. Sumir íslenskir kvikmyndagerðarmenn segja líka að þetta sé frábært fyrir fagið, því fólk haldist í æfingu og geti fjárfest í búnaði umfram það sem íslensk verkefni bjóða upp á. En mér sýnist samt sem áður að það hljóti að vera að minnsta kosti vert einhverrar umræðu að íslenska ríkið niðurgreiði Hollywood-myndir um hærri fjárhæðir á ári en lagðar eru í framleiðslu innanlands. Ef menning skiptir einhverju máli. Því þetta er menningarstefna. Eins þó að fjárveitingin liggi í gegnum iðnaðarráðuneytið. Þó að það sé ekki endilega ljóst hvað felst í þessari menningarstefnu, enda ekki rætt um hana sem slíka, er að nokkru leyti dagljóst hvað felst ekki í henni: Tom Cruise gerir ekki, til dæmis, kvikmynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Hann ónáðar ekki heimamenn.

Í þessu samhengi, og mörgu öðru samhengi raunar, er ein merkilegasta setning fjárlaganna við fyrstu sýn þessi hér: „Hjá utanríkisráðuneyti hefur framlag til Íslandsstofu verið undanþegið aðhaldskröfu.“ Orðið „undanþegið“ birtist hvergi annars staðar í fjárlögunum. Óskertar 493 milljónir eru lagðar til Íslandsstofu á fjárlögum ársins 2014 og heyra allar undir hinn ógegnsæja lið „Almennur rekstur“. Samkvæmt lögum um Íslandsstofu er meirihluti stjórnar hennar ávallt skipaður af Samtökum atvinnulífsins.

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR