Greining | Mælingar sýna mikla hylli íslenskra mynda

Smelltu til að stækka
Smelltu til að stækka

Heildaraðsókn á íslenskar kvikmyndir 2012 var 131.345 manns og hefur aðsóknin ekki verið meiri s.l. 12 ár. Flestir komu að sjá Svartan á leik og Djúpið eða alls um 110.000 manns. Góðu fréttirnar eru þær að þetta er enn eitt árið þar sem íslenskar kvikmyndir ná gríðarmikilli aðsókn, en sú hefur verið raunin samfleytt síðan 2006 þegar afar rysjóttu tímabili lauk með sýningu Mýrinnar eftir Baltasar Kormák. Þetta má sjá skýrt í grafinu hér til hliðar; á flestum þessara ára er aðsókn yfir 110. 000 manns og sum árin langt yfir því.

Lakari fréttirnar eru þær að ekki blæs byrlega fyrir yfirstandandi ári, en aðeins 20.623 hafa séð þær fimm myndir sem sýndar hafa verið það sem af er. Enn eru ósýndar Málmhaus eftir Ragnar Bragason og Svona er Sanlitun eftir Róbert Douglas. Nokkur ástæða er til að ætla að báðar muni fá ágæta aðsókn og gætu því lyft heildaraðsókn verulega upp.

Íslenskur kvikmyndamarkaður er risavaxinn

Tölur til að hafa í huga áður en lengra er haldið:

  • Meðal ársaðsókn í kvikmyndahús 1996-2012: 1.500.520 gestir
  • Meðal ársaðsókn á íslenskar myndir 1996-2012: 86.546 gestir
  • Árlegar heimsóknir í kvikmyndahús pr. haus 1996-2012: 4,8

Þessar tölur sýna að íslenskur kvikmyndamarkaður er einn sá stærsti í heimi. (Hér má sjá nokkurra ára gamlar tölur fyrir heiminn allan, Ísland sker sig úr). Bandarískar kvikmyndir njóta yfirburða á íslenskum markaði en þó hefur dregið verulega saman með þeim og öðrum myndum á allra síðustu árum; markaðshlutdeild þeirra hefur farið úr rúmu 80% í rúm 70% (sjá hér) og er farið að nálgast það sem tíðkast hefur á Norðurlöndunum og í Evrópu. En hinsvegar er óhætt að segja að íslenskar myndir standi sig almennt vel.

Tæp 5% þjóðarinnar sjá hverja íslenska mynd að meðaltali í bíó – 2,3% sjá hverja erlenda mynd

Alls hafa á þessu 17 ára tímabili (1996-2012) verið sýndar 95 íslenskar kvikmyndir. Þær hafa selt alls 1.471.289 aðgöngumiða, sem þýðir að meðalaðsókn á íslenska kvikmynd á tímabilinu er 15.487 manns, eða tæp 5% þjóðarinnar. 2012 er því í raun rétt undir meðaltali síðustu 17 ára. Ótalin eru síðan þau sem hafa leigt eða keypt myndirnar á myndböndum eða -diskum, séð þær í sjónvarpi, á netleigum eða VODi – nú eða halað þeim niður gegnum skráaskiptaforrit…

Til samanburðar má nefna að á sama tímabili hafa verið sýndar 3.190 erlendar kvikmyndir (hátíðir og sérsýningar ótaldar). Á þær seldust alls 24.037.553 aðgöngumiðar, sem þýðir að 7.535 sjá hverja mynd að meðaltali –  eða rúm 2,3% þjóðarinnar.  Ótalin eru þau sem hafa leigt eða keypt myndirnar á myndböndum eða -diskum, séð þær í sjónvarpi, á netleigum eða VODi – nú eða halað þeim niður gegnum skráaskiptaforrit…

Til fróðleiks má sjá hér að neðan lista yfir heildar- og meðaltalsaðsókn íslenskra kvikmynda 1996-2012. Byggt er á gögnum Hagstofunnar og SMÁÍS, en síðarnefnda apparatið sendi frá sér fyrstu formlegu mælingarnar 1996.

[tble caption=“Aðsókn á íslenskar myndir 1996-2012“ width=“500″ colwidth=“20|20|50|50″ colalign=“center|center|center|center“] Ár, Fjöldi mynda, Aðsókn, Meðaltal
1996, 2, 86.771, 43.386
1997, 4, 38.420, 9.605
1998, 2, 45.783, 22.892
1999, 3, 22.712, 7.571
2000, 6, 170.590, 28.432
2001, 4, 28.092, 7.023
2002, 9, 133.672, 14.852
2003, 5, 43.643, 8.729
2004, 6, 41.703, 6.951
2005, 2, 37.809, 18.905
2006, 5, 117.041, 23.408
2007, 5, 93.950, 18.790
2008, 8, 124.837, 15.605
2009, 6, 116.244, 19.374
2010, 9, 111.277, 12.364
2011, 10, 127.400, 12.740
2012, 9, 131.345, 14.594
Samtals,95,1.471.289,15.487
[/tble]

Heimild: Hagstofa Íslands.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR