Útúrdúr, tónlistarfræðsluþáttur sem hófst á RÚV síðastliðinn sunnudag, byrjar vel og kemur skemmtilega á óvart. Í meðförum Víkings Heiðars Ólafssonar píanóleikara og Höllu Oddnýjar Magnúsdóttur mannfræðings (sem einnig virðist kunna sitthvað fyrir sér á flygilinn) verður til þáttur sem fer með áhorfandann í skemmtilegt og fróðlegt ferðalag. Á bakvið myndavélina heldur Viðar Víkingsson leikstjóri um þræði ásamt Helga Jóhannessyni sem stjórnar upptökum. Á öllum póstum er fínu verki skilað.
Fæstum kemur á óvart að flygillinn leiki í höndum Víkings Heiðars en hann er einnig fínn sögumaður, fljótur að hugsa, tengja og sýna. Halla Oddný er svo frábær uppgötvun, með einstaka og áreynslulausa nærveru á skjánum.
Þetta er gott dæmi um afbragðs dagskrárgerð af því taginu sem RÚV ætti að gera sem allra mest af; menningarefni sem flestir geta haft gagn og gaman af; dagskrá um uppgötvanir og ævintýr. Haldi þetta svona áfram uppskera aðstandendur að minnsta kosti eitt stykki Eddu í febrúar – og það sem meira er; þakkláta sjónvarpsáhorfendur.