[column col=“1/2″][message_box title=“Art and Craft“ color=“gray“]
[usr 3,5]
Stjórnendur: Sam Cullman, Jennifer Grausman, Mark Becker
Bandaríkin, 2014
[/message_box][/column]Art and Craft segir magnaða sögu manns að nafni Mark Landis. Landis er sérkennilegur maður, greindur með geðklofa, sem býr einn í íbúð látinnar móður sinnar. Hann er líka góður falsari og eyðir frítíma sínum í að falsa merk listaverk sem hann gefur síðan til safna víðs vega um Bandaríkin, gabbandi starfsfólkið til að halda að þetta séu upprunalegu verkin. Landis hefur stundað þetta í um 30 ár og gefið fölsuð verk sín til næstum 50 safna. En þar sem hann er að gefa verkin er hann á gráu svæði hvað lögin varðar. Hann virðist einungis vera að gera þetta sér til gamans og af því að hann getur það! Meðfram sögu Landis fáum við einnig að kynnast einum starfsmanni í safni sem Landis gaf nokkur falsverka sinna og átak hans í að stöðva Landis.
Mark Landis hefur, svo að segja, náð lagni í listinni að blekkja. Þetta virðist hann af einhverju leyti hafa lært af kvikmyndum og sjónvarpi. Sem dæmi má nefna að Landis dulbýr sig stundum sem prest þegar hann er að gefa fölsuðu listaverkin sín, en hann kveðst hafa lært að hegða sér eins og prestur af sjónvarpsþáttunum Father Brown sem fjölluðu um prest sem leysti glæpi.
Mikið af hegðun Landis virðist í raun vera lærð frá sjónvarpinu. Mörg viskuorð sem koma úr munni hans reynast t.d. vera vitnanir í eitthvað sem hann sá í sjónvarpinu og hann reykir jafnvel sígarettur eins og menn gera yfirleitt í bíómyndum. Það mætti e.t.v. líta svo á að hann hafi í raun engan persónuleika, að allt sem hann geri sé bara apa eftir öðru og öðrum. En í rauninni er hann mikill karakter, með alla sína hæfileika og sérvisku. Mætti ekki líka segja svo að við erum í raun öll að apa eftir hvort öðru?
Art and Craft er ekkert gríðarlega stílhrein mynd, hún er skotin á frekar einfaldan og dæmigerðan hátt á lággæða stafrænar myndavélar. En um leið er hún samt ekki þessi hefðbundna “talandi hausa” heimildarmynd. Það er gott flæði í henni og hún inniheldur nokkur flott “montage” með symmetískrum skotum af hverfinu sem Landis býr í, þannig að sjónræna hliðin er ekki alveg hunsuð. Í viðtalsatriðunum eru viðföngin einnig yfirleitt látin vera að gera eitthvað á meðan það talar frekar en bara sitja kjurrt og tala sem gefur myndinni smá líf.
Engu að síður er Art and Craft í heildina svolítið sjónvarpsleg og gæti jafnvel hafa virkað betur sem klukkustundar langur sjónvarpsþáttur. Eitthvað af myndinni virkar sem hreint uppfyllingarefni og hún er ofurlítið endurtekningarsöm, auk þess sem kafa hefði mátt betur í suma hluti og einhverjum spurningum er enn ósvarað í lokin (t.d. hefði verið gaman að vita meira um fortíð Landis). En að mestu leyti nær myndin að halda athygli manns og efnið er alltaf áhugavert.
Í stuttu máli sagt er Art and Craft hrífandi portrett af einum óvenjulegum en merkilegum manni sem er um leið skoðun á merkingu listar og hvað felst í því að vera listamaður sem og handverksmaður, hún er kannski ekki listilega gerð en henni tekst upp það sem hún ætlar sér.