Margt í Ófærð jafnast á við það sem best var gert í þáttum á borð við Brúna og Glæpinn, þótt efnistökin séu ef til vill hefðbundnari og kvenhlutverkin ekki jafn bitastæð, að mati breskra sjónvarpsgagnrýnenda sem fylgst hafa með þáttunum upp á síðkastið.
Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð fékk 75 milljónir króna frá Creative Europe, kvikmynda- og sjónvarpsáætlun ESB, sem á dögunum úthlutaði alls um 700 milljónum króna. Annað íslenskt verkefni, heimildamyndin Garn í stjórn Unu Lorenzen fékk sjö milljónir króna og því rann alls 12% úthlutunarinnar til íslenskra verkefna. Svo hátt hlutfall hefur aldrei áður farið til neins aðildarlands í einni úthlutun.
BBC Four mun sýna þáttaröðina Ófærð(Trapped) en rásin hefur lagt mikla áherslu á erlendar þáttaraðir á undanförnum árum. Norrænar þáttaraðir á borð við Borgen, Forbrydelsen og Broen hafa notið þar mikilla vinsælda.