Von er á að minnsta kosti fjórum bíómyndum á næsta ári í leikstjórn og eftir handriti kvenna. Einnig hafa tvær kvikmyndir sem stýrt verður af konum fengið vilyrði um framleiðslustyrk og von er á að minnsta kosti tveimur þáttaröðum þar sem konur eru við stjórn. Þetta er nokkur breyting frá því sem verið hefur.
Á þriðja tug íslenskra kvikmynda og þáttaraða er nú á mismunandi stigum vinnslu, allt frá því að vera í fjármögnunar- og/eða undirbúningsferli til þess að vera nýkomnar út og í sýningum. Hér er yfirlit yfir nýjar og væntanlegar bíómyndir og sjónvarpsþáttaraðir á þessu og næsta ári, en nokkuð víst er að fleiri verkefni eigi eftir að bætast við.
Guðný Halldórsdóttir hefur fengið vilyrði fyrir styrk upp á 70 milljónir úr kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar Íslands árið 2017 til að gera kvikmyndina Ævinlega velkomin. Guðný hefur átt í útistöðum við Kvikmyndamiðstöð síðastliðin fjögur ár og segist vera hóflega ánægð með þessa niðurstöðu – hún hefði helst viljað vera að frumsýna myndina núna.