Friðrik Erlingsson leggur út af umræðunni um kynjakvóta í kvikmyndagerð og segir meðal annars: "Stóra vandamálið í kynjahallanum á úthlutun styrkja frá Kvikmyndamiðstöð er ekki hvort umsækjandi er með kynfærin innvortis eða utanáliggjandi. Stóra vandamálið er skorturinn á skýrum og afmörkuðum vinnureglum fyrir ráðgjafa Kvikmyndamiðstöðvar, svo þeir komist ekki lengur upp með að hafa ‘persónulega skoðun’ á umsóknum eða umsækjendum, heldur sé þeim gert að fjalla um þær á faglegan hátt, meta þær samkvæmt faglegri reglu, sem útilokar að persónulegt álit ráðgjafa hafi nokkuð um málið að segja."
"Ég gaf mér það leyfi að tala tæpitungulaust út frá mínu sjónarhorni um verk manna, en ekki um þá sjálfa. Þeir höfundar sem hafa tekið orð mín sem persónulegri árás verða að skilja að verk þeirra eru ekki hafin yfir gagnrýni - og það voru verkin sem ég gagnrýndi - þótt slíkt hafi löngum tíðkast í íslenskri kvikmyndagerð, að kollegunum sé hlíft við því hvað hinum raunverulega finnst. Við verðum að láta af slíkri kurteisi, því hún hamlar því sem við öll óskum eftir: framförum í íslenskri kvikmyndagerð," segir Friðrik Erlingsson í nýjum pistli.
Friðrik Erlingsson skrifar um stöðu leikins íslensks sjónvarpsefnis og spyr meðal annars: "Hvað var að ‘Hrauninu’? Og hvað var að flestum íslenskum sjónvarpsseríum sem við höfum framleitt til þessa? Svarið er skelfilega einfalt: Það skortir alla sannfæringu. Sannfæring verður til þegar maður veit hver maður er. Ef ætti að skilgreina þjóðina út frá íslenskum sjónvarpsseríum þá sést undir eins að við höfum ekki hugmynd um hver við erum, hvert við ætlum, og ennþá síður – og það er eiginlega sorglegast – hvaðan við komum."