Í fréttaskýringunni kemur fram að rekstrarerfiðleikar Glassriver hafi verið á margra vitorði í kvikmyndabransanum að undanförnu. Tökum á þáttaröðinni Ljúfa líf, sem áttu að fara fram á Spáni í janúar, hafi verið frestað sem og eftirvinnslu á þáttaröðunum Elmu og Flóðinu. Ekki hafi verið unnt að greiða starfsmönnum laun að undanförnu. Nú sé hinsvegar að rætast úr, laun og reikningar verktaka séu í greiðsluferli og áfram sé unnið að þáttaröðunum báðum. Einnig séu fleiri þáttaraðir í undirbúningi.
Í ársskýrslu 2024, sem fram kom seint á síðasta ári, segir að skuldir Glassriver nemi 1,7 milljarði króna. Hefur blaðið eftir heimildarmönnum að tíundi hluti þeirrar upphæðar myndu fá þá til að telja sig í vondum málum. Morgunblaðið segir skuldirnar hafa vaxið síðan og gætu numið nú um 2,2 milljörðum króna.
Rætt er við Andra Ómarsson framkvæmdastjóra og einn eigenda Glassriver. Hann segir fjárhagslega endurskipulagningu gera Glassriver kleift að starfa með eðlilegum hætti. Hann, Baldvin Zophoníasson, Arnbjörg Hafliðadóttir og Andri Óttarsson verði áfram í eigendahópnum. „Fyrirtækið er nú komið á allt annan stað í rekstrinum,“ segir Andri ennfremur.
Einnig er rætt við Jón Diðrik Jónsson hjá Senu, sem segist bæði koma inn með fjármagn og taka að sér bókhald og ýmislegt annað. „Við getum nýtt eitthvað af okkar styrkleikum til að gefa fólki sem er fremst í sínum geira tækifæri til að einbeita sér að þeim verkefnum,“ segir Jón Diðrik.













