spot_img

Stockfish kallar eftir umsóknum, lokafrestur nálgast

Stockfish hátíðin hefst 19. mars næstkomandi. Skilafrestir vegna innsendinga í þrjú lykilverkefni Bransadaga eru að renna út. Um er að ræða verk í vinnslu, stuttmyndakeppnina Sprettfisk og handritasmiðjuna The Whale. 

Ný norræn verk í vinnslu (frestur til 15. janúar, upplýsingar hér)

Veitir upprennandi kvikmyndagerðafólki á Norðurlöndum vettvang til að kynna fyrstu verkefni í þróun. Sex verkefni verða valin til þátttöku frá öllum Norðurlöndunum. Þátttakendur fá handleiðslu og „pitch“-þjálfun áður en verkefnin eru kynnt opinberlega á viðburði sem fer fram í Norræna húsinu, þann 28. mars 2026, sem hluti af bransadögum Stockfish. Markmið verkefnisins er að efla sýnileika nýrra höfunda og tengja þau við framleiðendur og annað lykilfólk í kvikmyndageiranum og styðja þannig við norræna meðframleiðslu, kynningu og samstarf til framtíðar.

Sprettfiskurinn – keppni fyrir íslenskar stuttmyndir, tónlistarmyndbönd og tilraunaverk (frestur til 15. janúar, upplýsingar hér)

Verður haldin í tólfta sinn dagana 19.–29. mars 2026 í Bíó Paradís. Keppt er í fjórum flokkum: Leiknar stuttmyndir, heimildamyndir, tilraunamyndir og tónlistarmyndbönd. Verk skulu vera íslensk að uppruna og hafa ekki verið sýnd opinberlega á Íslandi áður. Um 20 verk verða valin til sýninga á hátíðinni. Verðlaun eru veitt af RÚV og Kukl. Einnig verður veitt sérstök viðurkenning í nafni Evu Maríu Daníelsdóttur.

Handritasmiðjan The Whale (frestur til 1. febrúar, upplýsingar hér)

Fer fram í Reykjavík dagana 22.–25. mars. Smiðjan er ætluð höfundum sem vilja þróa kvikmynda- eða sjónvarpsverk áfram með faglegri handleiðslu og í skapandi umhverfi þar sem unnið er að skýrum markmiðum, tengslamyndun og framleiðslumöguleikum. Tina Gharavi, handritshöfundur og leikstjóri, leiðir smiðjuna. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín og var meðal annars tilnefnd til BAFTA fyrir kvikmyndina I Am Nasrine. Smiðjan fer fram á ensku og er ætluð höfundum sem hafa skrifað að minnsta kosti eitt kvikmyndahandrit eða sjónvarpsþátt. Í lok smiðjunnar gefst þátttakendum tækifæri til að kynna verk sín fyrir fagfólki í greininni.

Áhersla á upprennandi hæfileikafólk á Stockfish

Stockfish kvikmyndahátíðin 2026 fer fram dagana 19.–29. mars í Bíó Paradís í Reykjavík og Írland verður í brennidepli. Dögg Mósesdóttir er stjórnandi hátíðarinnar.

Lögð verður áhersla á verkefni upprennandi hæfileikafólks frá Norðurlöndum og fyrstu myndir alþjóðlegra leikstjóra sem hlotið hafa verðlaun á þessu ári á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.

Hátíðin hefur sett saman nýtt dagskrárráð sem samanstendur af hópi alþjóðlegra leikstjóra og gagnrýnenda sem veita hátíðinni ábendingar um kvikmyndir sem hafa vakið athygli á kvikmyndahátíðum að undanförnu. Dagskrárráðið samanstendur af Rúnari Rúnarssyni, Yrsu Roca Fannberg, Valdimari Jóhannssyni, Hilke Rönnfield, Ragnari Bragasyni og Nönnu Frank Rasmussen, formanni dönsku gagnrýnendasamtakanna.

Stockfish hátíðin er rekin af fagfélögum í kvikmyndagerð og leggur áherslu á að þjóna faginu og búa til vettvang fyrir grasrót kvikmyndagerðafólks, auk þess að opna á samtal við almenning um kvikmyndalistina.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR