spot_img

Þessar bíómyndir, heimildamyndir og leiknu þáttaraðir eru væntanlegar 2026

Að minnsta kosti fimm kvikmyndir í fullri lengd og tíu þáttaraðir eru væntanlegar á árinu 2026. Að auki hafa fjórar heimildamyndir boðað frumsýningar en þær verða þó mun fleiri. 

Tekið skal fram að mögulegt er að frumsýningartími einhverra þessara verka færist yfir á næsta ár og í mörgum tilfellum liggur ekki fyrir hvenær verkin koma út innan ársins. Þá er einnig mögulegt að fleiri verk bætist við.

Ábendingar sendist hingað.

Bíómyndirnar

Þuríður Blær Jóhannsdóttir í Röskun.

RÖSKUN

Ungur lögfræðingur glímir við geðröskun eftir nauðgun svo hún veit ekki hvort um sé að ræða ímyndun, gerandann sem aldrei fannst eða hvort hún sé ásótt af konu sem var myrt í íbúðinni hennar tveimur árum áður. Með helstu hlutverk fara Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Arnar Dan Kristjánsson og Unnur Birna Jónsdóttir. Bragi Þór Hinriksson leikstýrir, Helga Arnardóttir skrifar handrit og Valdimar Kúld Guðmundsson framleiðir. Væntanleg í febrúar.

Mathilde Warnier í Anorgasmia.

ANORGASMIA

Tveir ferðalangar, Sam og Naomi, sem hafa aldrei sést áður, festast á Íslandi þegar eldgos stöðvar öll flug. Þau stela bíl til að komast að gosinu og halda inn á hálendið. Þau komast aldrei að gosinu en ferðalagið veldur því að líf þeirra beggja taka nýja stefnu. Mathilde Warnier og Edward Hayter fara með helstu hlutverk. Jón E. Gústafsson leikstýrir og skrifar handrit ásamt Karolina Lewicka, sem einnig er framleiðandi fyrir Artio. Væntanleg á árinu.

Rammi úr Napóleonsskjölin 2: Tár úlfsins.

NAPÓLEONSSKJÖLIN 2: TÁR ÚLFSINS

Framhald Napóleonsskjalanna, sem frumsýnd var 2023. Í Tárum úlfsins heldur aðalsöguhetjan Kristín og teymi hennar af stað í nýja og hættulega leit að hinum goðsagnakenndu demöntum nasista, sem sagt er að hafi verið faldir í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þegar Kristín verður vitni að morði kemst hún á sporið og ásamt félögunum Steve og Einari, reynir hún að ráða dulmál, tónbrot og minjar úr stríðinu sem leiða þau inn á dularfullar söguslóðir Evrópu. Ferðin ber þau frá íslenskum jöklum til finnskra skóga og neðanjarðarganga í Helsinki, þar sem dramatískur lokaslagur fer fram í eyjaklasa Finnlands. Á leiðinni þurfa þau að glíma við svik, leyndarmál og ógnir fortíðar. Með helstu hlutverk fara Vivian Ólafsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Jack Fox og Tom Weston-Jones. Leikstjóri er Jyri Kähönen og handritið er eftir Martein Þórisson. Framleiðendur eru Beggi Jónsson, Kjartan Þór Þórðarson og Skarphéðinn Guðmundsson fyrir Sagafilm á Íslandi, Aðalsteinn Jóhannsson fyrir framleiðslufyrirtækið Þungur hnífur, ásamt Anitu Elsani og Alexander Klein fyrir þýska Splendid Entertainment og Eero Hietala og Sara Nordberg fyrir Take Two Studios og Elsani Film. Væntanleg í haust.

POLYORAMA

Á frumsýningarkvöldi í Borgarleikhúsinu lendir leikkonan Ingrid í miklu uppnámi þegar erlendur blaðamaður kemur á vettvang. Koma hans kveikir upp átök sem fléttuð eru eftirsjá, leyndarmálum og áratugagömlum sárum. Með helstu hlutverk fara Edda Björgvinsdóttir, Sean Harris, Þröstur Leó Gunnarsson, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir og Sara Dögg Ásgeirsdóttir. Graeme Maley leikstýrir og skrifar handrit. Skarphéðinn Guðmundsson, Arnar Benjamín Kristjánsson og Kjartan Þór Þórðarson framleiða fyrir Sagafilm. Væntanleg á árinu.

Taron Egerton og Charlize Theron í Apex.

APEX

Sagan hverfist um klettaklifrara sem er elt uppi í villtri náttúrunni. Með helstu hlutverk fara Charlize Theron, Taron Egerton og Eric Bana. Baltasar Kormákur leikstýrir og Jerome Robbins skrifar handrit. Myndin er væntanleg á Netflix í apríl.

Heimildamyndirnar

Aldrei þessu vant hefur þegar verið tilkynnt um frumsýningar nokkurra heimildamynda. Þær verða þó mun fleiri en þær sem taldar eru upp hér.

Rammi úr Um tímann og vatnið.

UM TÍMANN OG VATNIÐ

Myndin er innblásin af samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar og fjallar um mennsku og missi í heimi sem upplifir fordæmalausar umbreytingar. Verkið er ofið úr kvikmynda og ljósmyndasafni fjölskyldu Andra sem spannar meira en 80 ár. Í myndinni eru 16mm kvikmyndir Árna Kjartanssonar sem fanga fyrstu ferðir Jöklarannsóknarfélags Íslands í kringum 1955, til 8mm mynda sem Kristín Björnsdóttir móðir Andra tók upp úr 1975 og síðan VHS og stafrænar myndir sem Andri hefur sjálfur fangað frá 1995. Þriggja kynslóða kvikmyndasaga verður síðan að tímahylki sem ávarpar komandi kynslóðir. Andri Snær er meðframleiðandi, meðhöfundur og sögumaður verksins. Leikstjóri er Sara Dosa sem hlaut Óskarstilnefningu fyrir Fire of Love. Hún stýrði einnig heimildamyndinni The Seer and the Unseen, sem hún vann á Íslandi og kom út 2019. Einn framleiðenda er Shane Boris sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir Navalny. National Geographic Documentary Films og Sandbox films framleiða. Myndin verður frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar. Ekki er ljóst hvenær hún verður sýnd á Íslandi.

Rammi úr Fuglar og menn.

FUGLAR OG MENN

Á hverju ári, í þrjá mánuði, safnast tólf þúsund fuglar og fimm manneskjur saman í hinum afskekkta Loðmundarfirði. Hjónin Ólafur Aðalsteinsson og Jóhanna Óladóttir hafa í rúma tvo áratugi séð um æðarfuglana og byggt upp blómlega varpstöð á Sævarenda. Leikstjórar eru Mika Kaurismäki, Ingvar Þórðarson og Ragnar Axelsson. Væntanleg á árinu.

Rammi úr Hljóðriti – í hálfa öld. Frá vinstri: Gunnar Þórðarson, Tony Cook, Helgi Pétursson.

HLJÓÐRITI – Í HÁLFA ÖLD

Saga Hljóðrita er saga tónlistar á Íslandi síðustu 50 ár. Árni Þór Jónsson leikstýrir og framleiðir ásamt Hannesi Friðbjarnarsyni fyrir Republik. Meðframleiðendur eru RÚV, Guðmundur Kristinn Jónsson og Bragi Valdimar Skúlason. Þessi heimildaþáttaröð í fjórum hlutum hefst á RÚV 4. janúar.

Ferlið hans Bubba.

FERLIÐ HANS BUBBA

Í myndinni er Bubba Morthens fylgt eftir í eitt ár til að fá einstaka innsýn í líf hans, sköpun og tónlist. Ásgeir Sigurðsson leikstýrir og framleiðir ásamt Antoni Karli Kristensen og Halldóri Ísak Ólafssyni fyrir Ljós Films. Júlíus Kemp er einnig framleiðandi fyrir Kisa. Væntanleg 26. mars.

Leiknu þáttaraðirnar

Danska konan.

DANSKA KONAN

Dönsk kona flyt­ur til Íslands og tek­ur yfir fjöl­býl­is­hús þar sem hún svífst einskis til að kenna ná­grönn­um sín­um skandi­nav­íska hugs­un. Benedikt Erlingsson leikstýrir og skrifar handrit ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Marianne Slot og Carine LeBlanc framleiða fyrir Slot Machine. Meðframleiðendur eru Þórir S. Sigurjónsson og Birgitta Björnsdóttir fyrir Zik Zak. Danska leikkonan Trine Dyrholm fer með titilhlutverkið. Í öðrum stærri hlutverkum eru Hilmar Guðjónsson, Fyr Thorvald Strömberg, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir. Þættirnir sex verða á dagskrá RÚV frá 1. janúar.

Vaka

VAKA

Þættirnir, sem gerast í Stokkhólmi, fjalla um útbreiðslu banvæns faraldurs sem veldur krónísku svefnleysi. Fylgst er með ráðherra í fjölmiðlakrísu sem berst við að halda landinu á réttum kili gegnum faraldurinn, sjúkraflutningakonu sem berst fyrir lífi eiginkonu sinnar og unglingsstúlku sem reynir að vernda ungan nágrannastrák frá fjölskyldu hans sem berst við hrikaleg áhrif sjúkdómsins. Þessar þrjár frásagnir fléttast síðan saman á meðan ótti og skelfing heltekur Stokkhólm og fangar íbúa borgarinnar í lifandi martröð. Aðalhöfundur þáttanna er Brynja Björk Garðarsdóttir sem skrifar einnig handrit ásamt Pauline Wolff. Henrik Georgsson leikstýrir þáttunum og Aliette Opheim og Jonas Karlsson eru í aðalhlutverkum. Þetta er samframleiðsluverkefni Amazon MGM Studios, Unlimited Stories, Sagafilm og Skybound Entertainment. Sýningar hefjast á Amazon Prime á árinu.

Ebba Katrín Finnsdóttir í þáttaröðinni Hildur | Mynd: Björgvin Hilmarsson.

HILDUR

Byggt er á vinsælum bókum finnska rithöfundarins Satu Rämö um samnefnda vestfirska lögreglukonu. Hildur er rannsóknarlögreglukona hjá lögreglunni á Ísafirði, sem falið er að rannsaka röð sérkennilegra glæpa fyrir vestan. Henni til aðstoðar er Jakob, finnskur lögreglumaður í þjálfun sem hefur ástríðu fyrir prjónaskap og Þjóðverjinn Florian (Rick Okon), sem fenginn er í teymið fyrir misskilning. Ebba Katrín Finnsdóttir, Lauri Tilkanen og Rick Okon fara með helstu hlutverk. Tinna Hrafnsdóttir leikstýrir en handrit skrifa Matti Laine og Margrét Örnólfsdottir. Þættirnir, sex talsins, eru framleiddir af Sagafilm og Take Two Studios fyrir streymisveituna Ruutu í Finnlandi og Sjónvarp Símans. Væntanlegir á árinu.

Ormhildarsaga.

ORMHILDARSAGA

Sagan gerist í framtíð þar sem jöklarnir hafa bráðnað og úr þeim hafa skriðið verur sem áður voru aðeins til í þjóðsögum. Ormhildur er ung stúlka sem starfar ásamt Alberti gamla í Kukl- og Galdrarannsóknarsetri ríkisins. Smám saman uppgötvar hún eigin töframátt og leggur upp í ferðalag til að finna leiðir til friðsamlegrar sambúðar manna og goðsagnavera. Þórey Mjallhvít leikstýrir og skrifar handrit. Framleiðendur eru Compass Films í samstarfi við Animation Studio Iceland, Letko og Projects. Þættirnir eru alls 26 og verða sýndir vikulega á RÚV frá 3. janúar.

Ásthildur Úa Sigurðardóttir í Bless Bless Blesi.

BLESS BLESS BLESI

Þegar verðlaunastóðhesturinn Blesi finnst látinn byrjar eigandi hans, Auður, að rannsaka málið. Fljótlega kemst hún á snoðir um ósvífna samkeppni og hættuleg leyndarmál þar sem líf eru að veði. Óskar Þór Axelsson, Álfheiður Marta Kjartansdóttir og Hafsteinn Gunnnar Sigurðsson leikstýra. Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifa handrit ásamt Judith Angerbauer. ACT 4 framleiðir í samvinnu við Windlight Pictures í Þýskalandi. Væntanlegir á RÚV.

Úr Pabbahelgum.

FLEIRI PABBAHELGAR

Framhald þáttanna Pabbahelgar. Karen hefur verið einstæð þriggja barna móðir í fimm ár og nú orðin veraldarvön á Tinder. Hún leitar að hinni klisjulegu einu sönnu ást en gæti endað uppi með kjarnafjölskyldu númer tvö sem hún er alls ekki tilbúin fyrir, henni að óvörum. Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstýrir og skrifar handrit ásamt Erlu B. Skúladóttur og Sólveigu Jónsdóttur. Framleiðendur eru Birgitta Björnsdóttir og Nanna Kristín Magnúsdóttir fyrir Unga og Vintage Pictures. Þættirnir eru væntanlegir á RÚV á árinu.

Hannes Óli Ágústsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Friðgeir Einarsson í Hæst.

HÆST

Njáll, Hólmar, Bonní og Ragnar eru örvæntingarfullir og lífsleiðir kennarar sem fá þá hugmynd að leysa sín persónulegu vandamál með ráni. Einar Baldvin Arason og Freymar Þorbergsson leikstýra og skrifa handrit ásamt Friðgeir Einarssyni, Hannesi Óla Ágústssyni og Katrínu Björgvinsdóttur. Með helstu hlutverk fara Hannes Óli Ágústsson, Friðgeir Einarsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Krummi Kaldal Jóhannsson, Helga Salvör Jónsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Aðalbjörg Árnadóttir. Búi Baldvinsson framleiðir ásamt Einari og Freymari. Þættirnir eru væntanlegir í Sjónvarp Símans.

Anna Hafþórsdóttir í þáttunum Í versta falli.

Í VERSTA FALLI

Líf Katrínar væri dans á rósum ef mamma hennar væri bara edrú, systir hennar ekki í stöðugum vandræðum, karlmenn aðeins almennilegri og moldríki yfirmaðurinn hennar væri ekki svona grunsamlegur. Eða er Katrín kannski að búa til öll þessi vandamál svo hún þurfi ekki að horfast í augu við sjálfa sig? Helgi Jóhannsson og Hörður Sveinsson leikstýra. Anna Hafþórsdóttir skrifar handrit og fer með aðalhlutverk ásamt Eygló Hilmarsdóttur, Atla Óskar Fjalarssyni og Guðmundi Inga Þorvaldssyni. Birgitta Björnsdóttir framleiðir fyrir Vintage Pictures og Scanbox. Sex þættir, væntanlegir á árinu, líklega í Sjónvarp Símans.

Andri Haraldsson tökustjóri og Þórður Pálsson leikstjóri við undirbúning Flóðsins á Siglufirði.

FLÓÐIÐ

Spennutryllir sem gerist í nú­tím­an­um og hverf­ist um snjóflóð. Þættirnir voru teknir upp á Siglufirði í fyrra. Elín Hall fer með aðalhlutverk. Þórður Pálsson leikstýrir og skrifar handrit ásamt Ótt­ari Norðfjörð og Mar­gréti Örn­ólfs­dótt­ur. Guðgeir Arn­gríms­son hjá Glassriver framleiðir. Þættirnir fjórir verða sýndir í Sjónvarpi Símans á árinu.

Ljúfa líf.

LJÚFA LÍF

Þættirnir gerast í lok áttunda áratugarins í Reykjavík en aðallega í Magaluf á Mallorca á Spáni. Steindi Jr. leikur plötusnúð á Hollywood í Ármúla sem er að sleppa af léttasta skeiði en þó fastur í táningnum. Óábyrg týpa sem býr enn í foreldrahúsum og elskar djammið. Steindi hittir æskuástina sína úr gaggó sem Saga Garðarsdóttir leikur. Plötusnúðurinn verður skotinn sem aldrei fyrr og til að endurvekja ástina ræður hann sig sem fararstjóra í hópferð Íslendinga til Magaluf á Spáni til að elta hana við hennar störf sem femínískur kvikmyndagerðarmaður á Spáni. Auk Steinda og Sögu koma meðal annars fram Nikulás Hansen Daðason, Ingi Þór Þórhallsson, Sigga Ózk, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Þorsteinn Bachmann, Søren Bregendal, Friðgeir Einarsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Thea Snæfríður Kristjánsdóttir, Sigríður Ásta Olgeirsdóttir, Breki Freyr Rúnarsson, Jóhann Sigurðsson og Helga Braga Jónsdóttir. Magnús Leifsson leikstýrir. Ragnar Bragason skrifar handrit ásamt Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Glassriver framleiðir þættina sem eru átta talsins og verða sýndir á Sýn í haust.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR