spot_img

Kvikmyndaþing: Greinin við frostmark eftir þriðjungs niðurskurð á undanförnum árum, ráðherra fámáll um frekari aðgerðir

Kvikmyndaþing fór fram í gær í Bíó Paradís á vegum fagfélaganna. Staðan í greininni var rædd frá ýmsum hliðum að viðstöddum Loga Einarssyni menningarmálaráðherra. Hann steig á stokk í lokin og var vinsamlegur en sagði fátt bitastætt.

Ágætlega var mætt, vel á annað hundrað manns. Fulltrúar fagfélaganna og forstöðumaður KMÍ fóru yfir stöðuna frá ýmsum hliðum.

Hversvegna við erum að þessu

Sveinbjörn Baldvinsson formaður handritshöfundafélagsins (FLH) tók að sér að skýra hversvegna við værum að þessu yfirleitt og fórst það vel úr hendi. Minntist meðal annars á menningu, sögu, sjálfsmynd og íslenska tungu. Þegar svo við bættist vitnisburður af tjaldi frá mörgum kollegum úr bransanum um hversvegna þau væru að þessu ströggli, varð til ágæt stemmning.

Nokkrar blákaldar staðreyndir

Anton Máni formaður SÍK benti á nokkrar blákaldar staðreyndir. Kvikmyndasjóður, frumforsendan fyrir framleiðslu íslenskra kvikmynda og sjónvarpsefnis, hafi verið skorin niður um þriðjung á undanförum árum og sitji þar fastur með tilheyrandi afleiðingum fyrir greinina. Bíómyndum fari til dæmis hríðfækkandi og útlitið ekkert sérstakt framundan.

Anton undirstrikaði mikilvægi þess að gert yrði langtímasamkomulag við greinina um fjármögnun. Í Kvikmyndasjóði ættu nú að vera rúmir 2 milljarðar króna samkvæmt uppreiknuðu samkomulagi frá 2006. Í dag stendur sjóðurinn aðeins í 1,3 milljörðum.

Þá finni framleiðendur fyrir því að mun erfiðara er að ná erlendu fjármagni inn í íslensk verkefni. Anton benti einnig á að velta í greininni hafi dregist saman um 22% miðað við fyrstu 8 mánuði ársins og að fjöldi fagfólks hafi lítið að gera um þessar mundir.

Ekkert af þessu kom viðstöddum kvikmyndagerðarmönnum á óvart.

Einnig kom hann inn á ófjármagnaðan Sjónvarpssjóð, sem þó hefði verið stofnaður. Ekki sé mögulegt að halda uppi þeirri grósku í sjónvarpsframleiðslu sem verið hefur að undanförnu, án þess að hafa sjóð fyrir slík verkefni.

Endurgreiðslukerfið verði uppfært

Anton kom einnig inn á endurgreiðslumálin. Hann sagði 35% endurgreiðslu, að uppfylltum skilyrðum um lágmarksupphæðir og mannafla, hafa hjálpað stórum verkefnum frá gildistöku, en lagði fram þá kröfu fyrir hönd kvikmyndagreinarinnar að 35% endurgreiðslan myndi ná yfir öll verkefni, ekki aðeins þau stærstu. Að auki ætti endurgreiðslan að vera 40% á barnaefni, sem þyrfti sérstakan stuðning og hvata til framleiðslu. Þá benti hann á að lagaleg fordæmi væru fyrir því í Evrópu að draga ekki opinber framlög (Kvikmyndasjóðs) frá stofni til endurgreiðslu og einboðið að gera það hér einnig. Allt þetta myndi hjálpa verulega.

„Við erum lítið land“, sagði Anton. „Flest lönd hafa í marga sjóði að sækja þegar kemur að kvikmyndagerð. Við höfum eingöngu einn sjóð og því er endurgreiðslukerfið sérstaklega mikilvægt fyrir innlend verkefni.“

Niðurskurður á kostnað nýliðunar og fjölbreytileika

Hrönn Sveinsdóttir, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra, stýrði þinginu. Í opnunarávarpi sínu greindi hún frá því að mikil nýliðun hefði orðið í greininni á síðustu árum, mun fleiri konur störfuðu nú innan greinarinnar og að á árunum 2019–2023 hafi Ísland verið með hæsta hlutfall kvenleikstjóra í Evrópu samkvæmt European Audiovisual Observatory. Þessi jákvæða þróun stæði þó á höllum fæti.

„Þegar fjármagnið dregst saman minnkar svigrúm til að styðja nýliða, konur og fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Þá verða færri verkefni gerð, fá tækifæri skapast og raunhæf hætta er á að fjölbreytileiki, nýliðun og breytt samfélagslegt landslag innan kvikmyndagerðar glatist,“ sagði Hrönn.

Logi: Get lítið meira gert í bili

Logi Einarsson menningarmálaráðherra, lokaði þinginu. Hann ræddi endurgreiðslumál, en frumvarp um framlengingu endurgreiðslunnar er nú í meðförum þingsins. Þar eru nokkrar reglur skýrðar og ennfremur gert ráð fyrir 35% endurgreiðslu til barna- og unglingaefnis. Hann hvatti kvikmyndagerðarmenn til að skila inn umsögnum við frumvarpið og lýsti vilja til frekara samtals. Stjórnvöld vilji auka fyrirsjáanleika fyrir bæði greinina og ríkissjóð. Logi sagði einnig frá því að frumvarp um menningarframlag streymisveita væri væntanlegt á næstunni.

Þá minntist hann á að listin sjálf og menningin væri mikilvægari en tal um krónur og aura. Vísaði þar til gagna sem lögð voru fram á Kvikmyndaþinginu um að kvikmyndagerðin skilaði meiru til baka í fjármunum til þjóðarbúsins en hún fengi. Var þar komin kunnuglegur málflutningur stjórnmálamanna, sem vilja beina leiðinda tali um fjármögnun listgreinarinnar annað og mætti ætla að þeir telji að þetta sé ekki fólki í greininni vel ljóst.

Illugi Gunnarsson: „Það má ekki gleyma því að listin er fyrst og fremst listarinnar sjálfrar vegna“

Logi minntist einnig á Kvikmyndastefnuna og benti á að þar hefði ýmislegt verið framkvæmt, til dæmis Kvikmyndalistadeild og starfslaun kvikmyndahöfunda. Ekki ræddi hann þó að fjármagn til ýmiskonar verkefna í Kvikmyndastefnunni hefði verið fjarlægt og ekki ræddi hann þá staðreynd að helsta markmið stefnunnar, efling Kvikmyndasjóðs, hefði gengið í þveröfuga átt og sá niðurskurður væri miklu meiri en næmi því sem rynni til menntunar og starfslauna.

Má súmmera málflutning Loga upp svona: Þið eruð ágæt, en því miður get ég ekki gert meira fyrir ykkur í bili. En höldum endilega áfram að spjalla.

Kannski er bara betra að fá þetta nokkuð skýrt, frekar en hástemmdar yfirlýsingar forvera um mikil plön, sem svo reyndust fela í sér mikinn niðurskurð þegar upp var staðið. Sá niðurskurður stendur þó enn og fátt sem bendir til þess að það breytist á næstunni.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR