spot_img

EINSKONAR ÁST fær góð viðbrögð í Þýskalandi

Einskonar ást eftir Sigurð Anton Friðþjófsson hefur verið sýnd á hátíðum og í kvikmyndahúsum í Úkraínu og Þýskalandi undanfarna mánuði. Myndin er einnig fáanleg á efnisveitum.

Myndin var frumsýnd á Íslandi á síðasta ári. Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson hjá Kvikmyndafélagi Íslands framleiddu.

Einskonar ást var sýnd í kvikmyndahúsum í Úkraínu í sumar á vegum Kyiv Music Film og kom út á VOD þar í landi í ágúst. Myndin hefur einnig ferðast um Þýskaland í október undir merkjum Queer Film Nacht og verður gefin út á efnisveitum á næstunni.

Dreifing í Bandaríkjunum á vegum Dark Stars er fyrirhuguð í upphafi næsta árs. Myndin verður einnig sýnd í S-Kóreu á næsta ári á vegum Husky Films.

Þýski kvikmyndavefurinn Film rezensionen fjallar um myndina og segir meðal annars:

Einskonar ást segir frá hinum mörgu hliðum nútímaástar og möguleikanum á að græða peninga á kynlífi. Sú staðreynd að allt þetta gerist á Íslandi, strjálbýlasta landi Evrópu, kemur aðeins á óvart í fyrstu, því leikstjórinn og handritshöfundurinn Sigurður Anton Friðþjófsson meðhöndlar viðfangsefni sitt á svo afslappaðan hátt að maður heillast fljótt.

Annar þýskur kvikmyndavefur, Kino zeit, skrifar meðal annars svo um myndina:

Íslenski handritshöfundurinn og leikstjórinn Sigurður Anton Friðþjófsson (f. 1991) segir sögu unga kynlífsáhrifavaldsins Emilýjar (Kristrún Kolbrúnardóttir) í Einskonar ást. Líkt og Sean Baker í Anora (2024) forðast hann klisjurnar sem oft eru tengdar við slíkar sögur. Hann hvorki rómantíserar né hneykslast á kynlífsstarfinu á netinu sem söguhetjan stundar. Þess í stað lýsir hann því sem vinnu sem getur stundum verið jafn pirrandi og hversdagsleg og hver önnur. Einskonar ást er, líkt og kvenhetja hennar, full af ævintýrum og hlýju – kvikmynd sem trúir á frelsi og sjálfsþekkingu jafnt sem samheldni.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR