spot_img

Hanna Björk Valsdóttir: „Það er tekið eftir þessari seiglu sem við þurfum að sýna“

„Það vita það allir á Norðurlöndunum að Ísland hefur ekki jafn mikið fjármagn í heimildarmyndagerð,“ segir Hanna Björk Valsdóttir í viðtali við Víðsjá á Rás 1. Hún hlaut á dögunum aðalverðlaun framleiðenda á Nordisk Panorama. 

Á vef RÚV segir:

„Oft er maður við það að bugast og gefast upp og þá er rosalega gott að fá svona viðurkenningu. Mér þykir mjög vænt um það og auðvitað hvetur það mann áfram,“ segir Hanna Björk Valsdóttir í Víðsjá á Rás 1.

Hanna Björk Valsdóttir hreppti nýverið aðalverðlaun framleiðenda á Nordisk Panorama, stærstu hátíð kvikmyndagerðar á Norðurlöndum. Hanna Björk hefur síðustu áratugi framleitt fjölda heimildarmynda og í kvöld verður frumsýnd á RIFF heimildamyndin Jörðin undir fótum okkar, samstarfsverkefni þeirra Yrsu Roca Fannberg. Sú mynd hefur þegar unnið til verðlauna á alþjóðavettvangi.

„Þetta er ótrúlega mikill heiður og ég er bara mjög stolt af því að hafa fengið þessi verðlaun,“ segir Hanna Björk í samtali við Melkorku Ólafsdóttur í Víðsjá á Rás 1.

Leikstjórar á Norðurlöndunum tilnefna einn framleiðanda ár hvert, frá hverju landi, og Hanna Björk segist alls ekki hafa átt von á því að hljóta verðlaunin. „Eins og við vitum þá hafa Skandinavar, og Norðurlandaþjóðirnar, verið mjög öflugir í heimildarmyndagerð. Þetta kom mér mjög á óvart en ég er mjög þakklát.“

Í umsögn dómnefndar segir að Hanna Björk sé metnaðarfullur framleiðandi sem virkjar sköpunarmáttinn á sama tíma og hún styður við leikstjórana sem hún vinni með. „Við dáumst að langvarandi tryggð framleiðandans við listrænar og framsæknar heimildarmyndir sem vekja alþjóðlega athygli. Það er aldrei auðvelt að gera heimildarmyndir – og enn síður í heimalandi framleiðandans – en þessi staðfasta manneskja heldur áfram af hugrekki og listfengi.“

Það er því ljóst að dómnefndin áttar sig á erfiðu starfsumhverfi á Íslandi þegar kemur að styrkveitingum og öðru slíku. „Þá er bara verið að tala um fjármagn. Það vita það allir á Norðurlöndunum að Ísland hefur ekki jafn mikið fjármagn í heimildarmyndagerð. Það er tekið eftir því og þessari seiglu sem við þurfum að sýna til að halda áfram að starfa við þetta,“ segir Hanna Björk um ummæli dómnefndarinnar.

„Þess vegna eru kannski ekki svo margir sem starfa við þetta á Íslandi, heimildarmyndagerð.“

Fylgir verkefninu frá upphafi til enda

Starf framleiðanda í kvikmyndabransanum er mjög mikilvægt en þó átta margir sig ekki almennilega á hvað felst í því. Hanna Björk segir starfið yfirgripsmikið og fjölbreytt og fari algjörlega eftir hverju og einu verkefni.

„Hefðbundna skilgreiningin er að þú ert ábyrgur fyrir því að fá fjármagn í verkefnið, líka að fá starfsfólk í verkefnið.“

Þegar Hanna Björk vinni við skapandi heimildarmyndir sem taki jafnvel fimm ár í framleiðslu og undirbúningi, þá vinni hún með leikstjórunum að handriti, vinni í öllum umsóknum, er með í öllum tökum og klippiferlinu. „Ég fylgi verkefninu alveg frá upphafi til enda.“

„Svo þegar myndin er tilbúin þá tekur við annað ferli þar sem við erum að koma henni út; frumsýna, fara á kvikmyndahátíðir, reyna að koma henni í sölu. Það er líka mjög mikil vinna.“

Íslensk verkefni séu oftast gerð fyrir lítið fjármagn og þá sé framleiðsluteymið fremur lítið. Oft sé hún bara ein að snúast í öllu. „Ég held að fólk viti oft ekki hvað framleiðandinn gerir en það er líka bara af því að hann gerir svolítið allt. Það er oft erfitt að skilgreina, það eru svo ofboðslega margir boltar.“

Mæta ekki með kameru og gera bara eitthvað

Jörðin undir fótum okkar er nýjasta framleiðsla Hönnu Bjarkar í leikstjórn Yrsu Roca Fannberg. Þetta er önnur myndin sem þær gera saman, sú fyrri var Síðasta haustið sem hlaut Edduverðlaun sem besta heimildarmynd ársins 2020.

„Yrsa er búin að vinna á elliheimilinu Grund í að verða 15 ár. Hún þekkir starfið, þekkir fólkið og langaði að gera þessa mynd. Þá byrjuðum við á að skrifa handrit. Hún ákveður hvaða senur hún vill hafa í myndinni, það er ekki þannig að við mætum með kameru og gerum bara eitthvað,“ útskýrir Hanna Björk.

Hún lýsir því sem þær gera sem skapandi heimildarmynd. „Við erum að búa til kvikmynd, við erum að hugsa hana fyrir bíóhús og stóra tjaldið. Við erum ekki að taka viðtöl, erum ekki að fjalla um beint – heldur er þetta listræn kvikmynd.“

Þau taki upp á 16 millimetra filmu og því skipti öll kvikmyndataka og hljóðvinnsla miklu máli. „Handritið var fyrsta skrefið, að koma því saman. Svo auðvitað breytast hlutirnir og maður sér eitthvað nýtt þegar maður er í tökum. Það er líka það sem mér finnst mest heillandi við heimildarmyndaformið, það óvænta sem gerist og maður er alltaf að bregðast við þó maður sé með fyrir fram ákveðið hvað maður ætlar að gera, þá fer það alltaf á einhverja nýja leið.“

„En á endanum, þegar við sjáum myndina og skoðum handritið, þá fylgjum við því nánast.“

Hægt að byggja upp heimildarmynd eins og leikið efni

Fyrsta myndin sem Hanna Björk vann við var Draumalandið sem byggð er á samnefndri bók Andra Snæs Magnússonar. „Í kjölfarið gerum við Hvell sem er upphafið á náttúruverndarbaráttu á Íslandi. Mér þykir rosalega vænt um þessar myndir,“ segir Hanna Björk sem er mjög umhugað um náttúruna.

Í seinni tíð vinnur Hanna Björk mestmegnis með listamönnum og fyrir algjörlega tilviljun eru flestir leikstjórarnir konur. „Mér finnst listræni þátturinn skipta ofboðslega miklu máli.“

„Stundum er munurinn á leiknu efni og heimildarmyndum sá að þú ert ekki að vinna með leikara heldur raunveruleg viðfangsefni – en þú getur byggt myndina upp alveg eins og þú værir að vinna með leikið efni og mér finnst það mjög spennandi. Þú ert kannski að biðja fólk um að endurtaka það sem það er vant að gera en ekki biðja um eitthvað sem gerist ekki. Því allt byggir þetta á einhverju sem gerist í raunveruleikanum.“

Það sem heillar Hönnu Björk mest við heimildarmyndina er þegar hún upplifir eitthvað nýtt. Oft séu þær tilraunakenndar og ljóðrænar sem henni þykir spennandi. „Mér finnst ég oftar rekast á eitthvað sem er alveg nýtt. Oft eru þetta einhvers konar viðfangsefni sem eru bara mjög merkileg og oft opnar það nýjan heim fyrir manni.“

„Maður er kannski að horfa á myndir frá öllum heimshornum, maður verður aðeins upplýstari og upprifinn af því sem er að gerast í heiminum.“

Gott að fá viðurkenningu þegar maður er að bugast og við það að gefast upp
Hanna Björk er alltaf með mörg járn í eldinum og þessa stundina er hún með þrjár íslenskar myndir í vinnslu og eitt danskt samstarfsverkefni. „Það er líka ofboðslega skemmtilegt, að kynnast fólki sem er að gera það sama í öðrum löndum.“ Á Íslandi sé lítið fjármagn og því geti starfið oft verið einmanalegt. Þess vegna sé líka mikilvægt að fara á kvikmyndahátíðir og kynnast kollegum víða um heim.

Ein af þessum myndum er hennar eigin og fjallar um dansara og tónlistarmenn frá Gíneu sem starfa í Kramhúsinu. Hún segist þó brenna fyrir mörgu, sem sé kannski vandamálið. „Maður er með svo margar hugmyndir, það eru svo margar myndir sem mann langar að gera.“

Hún segir það mikla hvatningu að hafa hlotið framleiðendaverðlaun Nordisk Panorama, til að halda áfram að segja sögur í gegnum kvikmyndalistina. „Oft er maður við það að bugast og gefast upp og þá er rosalega gott að fá svona viðurkenningu. Mér þykir mjög vænt um það og auðvitað hvetur það mann áfram.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR