Segir í tilkynningu frá RÚV:
„Það hefur verið hálfgerður draumur hjá okkur leikstjórunum að fá að leikstýra Áramótaskaupinu og er því kominn mikill fiðringur í okkur að fá að takast á við þetta spennandi verkefni,“ segir Allan Sigurðsson, annar leikstjóri Skaupsins í ár.
„Handritshópurinn samanstendur af frábærum grínistum sem koma með ólíka hluti að borðinu. Markmiðið er að sjálfsögðu að gera skemmtilegt Skaup sem öll fjölskyldan getur notið saman í góðri áramótastemningu og við hlökkum til að sýna afraksturinn,“ bætir Hannes Þór Arason við.
Handritshópinn í ár skipa reynsluboltar í gríni úr ólíkum áttum og sum hafa áður komið að skrifum á Áramótaskaupinu.
Anna Svava Knútsdóttir leikkona og uppistandari hefur komið að skrifum á Skaupinu fimm sinnum áður. Hún hefur til að mynda komið að skrifum á þáttunum Ligeglad og Eurogarðinum.
Björn Bragi Arnarson uppistandari og sjónvarpsmaður kemur að Skaupinu í fyrsta sinn. Hann hefur stýrt sjónvarpsþáttunum Kviss á Stöð 2 auk þess að standa að uppistandssýningunum Púðursykur.
Jón Jónsson leikari, uppistandari og tónlistarmaður tekur þátt í skrifum fyrir Skaupið í fyrsta sinn. Hann hefur verið hluti af skrifteymi fyrir þættina Iceguys auk þess að koma fram í uppistandinu Púðursykur.
Karen Björg Eyfjörð uppistandari og handritshöfundur var í höfundateymi Skaupsins 2023. Hún hefur komið að skrifum fjölda sjónvarpsþátta, meðal annars Venjulegt fólk og Kennarastofan fyrir Sjónvarp Símans.
Ólafur Ásgeirsson var í höfundateymi Skaupsins í fyrra. Hann er einn höfunda vinsælu sýningarinnar Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar sem hefur verið sýnd fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu síðustu ár.
Allan og Hannes framleiða Skaupið undir merkjum Atlavíkur, sem þeir eiga og reka ásamt Hannesi Þór Halldórssyni. Síðustu ár hafa þeir framleitt og leikstýrt fjölbreyttum sjónvarpsþáttum, til dæmis Iceguys, Bannað að hlæja, Alheimsdraumnum og nýverið Systraslag fyrir RÚV.













