Kvikmyndaskóli Íslands er gjaldþrota. Stjórnendur höfðu vonast eftir aðkomu ríkisins til að bjarga skólanum en í gær varð ljóst að ekkert verður af því. Menntamálaráðuneytið hefur leitað til Tækniskólans um að bjóða nemendum upp á áframhaldandi nám.
„Nemendur eru bara mjög spældir. Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við völdum þennan skóla upp á þekkingu þeirra og reynslu,“ segir Katrín Eir Ásgeirsdóttir, forseti nemendafélags Kvikmyndaskólans. Hún bendir á að rúmur helmingur starfsfólks í kvikmyndageiranum á Íslandi hafi útskrifast úr skólanum og nemendur óttist að þekking og reynsla úr skólanum glatist við það að sameina deildir hans undir öðrum skóla.
Greint var frá samkomulagi Tækniskólans og menntamálaráðuneytisins í gær. Nemendur við Kvikmyndaskólann eiga að geta haldið námi sínu áfram við Tækniskólann til að geta útskrifast. Jafnframt verður hafin vinna við nýjar námsbrautir í kvikmyndagerð innan Tækniskólans.
Nemendur sem fréttastofa hefur rætt við furða sig á því að ekkert samráð hafi verið haft við þá, eða kennara.
„Við og kennarar fengum bara að vita það á föstudag að við værum að fara í Tækniskólann,“ segir Elva Rún Róbertsdóttir, nemandi við Kvikmyndaskólann en hún er einnig í stjórn nemendafélagsins.
Hún segist hafa viljað að menntamálaráðuneytið féllist á tillögu Rafmenntar, fyrirtækis sem er meðal annars í eigu Rafiðnaðarsambands Íslands, en fyrirtækið óskaði eftir því við menntamálaráðuneytið að hefja viðræður um að taka yfir námið.
Forgangsmál að hlúa að nemendum
Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, segir það vera forgangsmál hjá skólanum að tryggja hagsmuni nemenda Kvikmyndaskólans. Samhliða muni skólinn kanna möguleikann á að fá starfsmenn Kvikmyndaskólans til liðs við sig.
„Við berum mikla virðingu fyrir því starfi og þekkingu og reynslu sem þar býr,“ segir hún.
Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskólans, sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem þessum áformum er mótmælt. Í samtali við fréttastofu sakar hún ráðuneytið um valdníðslu og skilningsleysi þegar kemur að sérstöðu kvikmyndagerðar. Hún óttast að sérþekking glatist enda sé kvikmyndagerð listgrein frekar en iðn.
Hildur, skólameistari Tækniskólans, segir hins vegar að þar á bæ sé ekki aðeins boðið upp á iðnnám, heldur ýmiss konar listnám – svo sem ljósmyndun og grafíska hönnun.
„Þetta á að passa vel inn. Við buðum lengi upp á nám í kvikmyndatækni þannig að með góðri aðstoð fólks úr kvikmyndaiðnaðinum held ég að okkur eigi að vera mjög gerlegt að gera þetta og gera það vel.“