FISKUR UNDIR STEINI sýnd í Bíótekinu, Þorsteinn Jónsson tjáir sig um deilurnar við sýningu myndarinnar

Bíótek Kvikmyndasafns Íslands sýnir heimildamyndina Fiskur undir steini eftir Þorstein Jónsson og Ólaf Hauk Símonarson sunnudaginn 13. apríl. Einnig verður sýndur viðtalsþáttur sem Sjónvarpið sendi út beint á eftir sýningu þessarar umdeildu kvikmyndar. Þorsteinn rifjar upp viðbrögðin við sýningu myndarinnar.

Dagskrá Bíóteksins sunnudaginn 13. apríl má skoða hér.

Heimildamyndin Fiskur undir steini er 30 mínútna löng. Hún var frumsýnd í Sjónvarpinu 3. nóvember 1974 og vakti gríðarlegar deilur.

Í kynningu Bíóteksins um sýninguna segir:

Ólafur Haukur Símonarson og Þorsteinn Jónsson ræða við sýningargesti um þessa mögnuðu mynd og þær viðtökur sem hún hlaut sínum tíma.

Það kvað við nýjan tón í íslenskri kvikmyndagerð með kvikmyndinni Fiskur undir steini eftir Þorstein Jónsson og Ólaf Hauk Símonarson.

Kvikmyndin var frumsýnd á RÚV í nóvember 1974 og olli strax mikilli úlfúð í samfélaginu. Margar blaðagreinar voru ritaðar og myndin gagnrýnd úr ræðustól Alþingis.

Fiskur undir steini var fyrsta kvikmynd Þorsteins og Ólafs Hauks í röð mynda um menningu. Í henni fer höfuðborgarbúi í sjávarpláss og reynir að kynnast lífinu þar.

Myndin er tekin í Grindavík en á að lýsa hefðbundnum sjávarplássum víðs vegar um landið þar sem fólk vinnur myrkranna á milli en nýtur ekki menningar og lista. Það lá fyrir áður en myndin var sýnd að hún myndi stuða marga og greip RÚV til þess ráðs að vera með umræðuþátt strax að lokinni sýningu.

Í þættinum mættu Þorsteinn og Ólafur Haukur þeim Magnúsi Bjarnfreðssyni fréttamanni Sjónvarpsins og Guðlaugi Þorvaldssyni háskólarektor.

Á sýningu Bíóteksins verður umræðuþátturinn sýndur eftir kvikmyndasýninguna í fyrsta sinn í rúma hálfa öld.

Þorsteinn skrifar á Facebook:

Við Ólafur Haukur lögðum leið okkar til Grindavíkur með 16mm Bolex og Tandberg segulbandstæki.

Þarna voru tvö gömul hverfi með fallegum litlum húsum og síðan voru ný hverfi með stórum einbýlishúsum. Ein bensínsjoppa sem seldi líka bækur og tímarit og í félagsheimilinu var hægt að fá uppáhellt kaffi og kleinu og lagtertu bakdyramegin.

Staðsetning þorpsins réðist af nálægð við fiskimið. Á malargötum þorpsins sást varla nokkur maður á ferli, helst einstaka móðir með barn í vagni. Vinnan stóð næstum allan sólarhringinn.

Það var eins og hver annar brandari að leita að menningarviðburðum sem var tilgangurinn. Við mynduðum það sem bar fyrir augu.

Yfirmenn Sjónvarpsins þorðu ekki að sýna myndina nema sýna hana forsvarsmönnum útgerðarmanna fyrst. Niðurstaðan var að sýna myndina en hafa umræðuþátt strax eftir.

Þar reyndu Magnús Bjarnfreðsson sjónvarpsþulur og Guðlaugur Þorvaldsson háskólarektor að þjarma að okkur höfundunum og draga efni myndarinnar og meiningu í efa. Áhorfendur áttu ekki að fá að mynda sér sjálfstæða skoðun.

Myndin þótti árás á menninguna og þjóðlífið og Grindavík og vandaðir menn voru dregnir fram til að vitna um hversu ómerkileg myndin var og höfundarnir lélegir pappírar.

Í Morgunblaðinu var rætt við Harald Ólafsson lektor í Háskólanum starfsmann Guðlaugs Þorvaldssonar, bróður helsta útgerðarmannsins í Grindavík.

Haraldur sagði:

„Um menningarneyslu og lífsviðhorf fólks í Grindavík (hvað þá sjávarþorpum yfirleitt) segir myndin ekki neitt. Enginn er tekinn tali um þau efni, hvergi gægst inn í hús fólks né álits spurt ánokkurn hlut. Dæmi og rök eru látin lönd og leið, engar skilgreiningar færðar né tölur taldar. Þessi mynd dugar ekki til að beina umræðum um menningarástand inn á nýjar brautir. Til þess að svo mætti verða hefði hún orðið að vera hreinni og beinni, byggð á þekkingu, ekki formúlum, samkennd, ekki álfalegu hnussi.“

[…] „Vinnsla sjávarafurða krefst verkkunnáttu, vandvirkni og alúðar. Um þetta fjalla höfundarnir ekki. Þeir spyrja ekki einu sinni hvort þekking og hæfni hafi menningarlegt gildi. Þeir velta ekki fyrir sér hvort menn að starfi hugsi kannski eitthvað, að þeim detti eitthvað í hug, skapi jafnvel eitthvað í önn daganna.“

Auk þess segir hann að fátt þyki sér óyndislegra en þessi aðdáun á alþýðunni enda sé hún ekkert annað en hroki þeirra sem telja sig sjálfkjörna dómara um allt, sem menning og list nefnist.

Einar Alexandersson sagði meðal annars:

„… meðan á viðdvöl þeirra í bókabúðinni, er kanaútvarpið látið glymja allan tímann. Ég hef aldrei heyrt í útvarpi á þessum stað áður. Því grennslaðist ég fyrir um það hvort útvarp hefði verið í gangi í búðinni þegar umrætt atriði var tekið. Svo var auðvitað ekki. Þannig mætti rekja næstum hvert einasta atriði myndarinnar og sýna fram á að þeir Ólafur Haukur og Þorsteinn hagræða efninu til þess að þjóna fyrirfram ákveðnum tilgangi.“

Rúnar Gunnarsson kvikmyndatökumaður Sjónvarpsins hafði eftirfarandi að segja:

„Fiskur undir steini var tæplega það sem ég vil kalla Fisk undir steini. Áróður ofan á áróður væri nær sanni…“

[…] „Það fór ekki á milli mála hver tilgangur myndarinnar var enda hvatti Þjóðviljinn lesendur sína óspart til að sitja fyrir framan „kassann“ í kynningu sinni á sjónvarpsefni vikunnar framundan. Það var leitt fyrir línukommana að þessi fyrsta mynd þeirra félaga skyldi hafa verið þvílík einhliða áróðursmynd, að varla verður hægt að horfa á framleiðslu þeirra félaga í framtíðinni öðruvísi en með lituðum glerjum sem filtera út rauða litinn.“

[…] „Myndin fjallaði ekki um menningu í Grindavík, heldur þjóðfélagslega og pólitíska komplexa tveggja reiðra ungra manna í Reykjavík.

[…] Að lokum ein spurning til umhugsunar. Hversu langt má ganga í rangfærslum og áróðri undir því yfirskyni að verið sé að vekja fólk til umhugsunar um þjóðfélagsmál?“

Rúnar nefndi að hann óskaði eftir því að einhverjir hægri menn fengju sömu tækifæri. En það var einmitt í anda þess sem við Ólafur höfðum talað um að Sjónvarpið ætti að vera opið fyrir öllum skoðunum. Að Þjóðviljinn skammaðist ekki eins og Morgunblaðið var túlkað af sumum þannig að við værum úr herbúðum hans.

Eftir sýningu myndarinnar kepptust sjávarpláss úti á landi við að setja upp leikrit, halda málverkasýningar og standa fyrir flutningi á tónlist. Umræðan um myndina, með og á móti, stóð í heilt ár í fjölmiðlum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR