Þak boðað á endurgreiðslur í nýrri fjármálaáætlun, ekkert um framlög til Kvikmyndasjóðs næstu árin

Í Fjármálaáætlun 2026-2030, sem lögð var fram í dag, er nefnt að unnið verði að endurskoðun á lögum um endurgreiðslukerfi kvikmyndagerðar. Orðalag er almenns eðlis en ljóst að stefnt er að einhverskonar þaki á árlegar endurgreiðslur, sem ekki hefur áður verið.

Á bls. 56 segir: „Lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar verða endurskoðuð með það í huga að breytingar hafi áhrif frá árinu 2027.“

Á bls. 59 stendur: „Loks má nefna að fyrirkomulag endurgreiðslna til kvikmyndagerðar verður endurskoðað með það að markmiði að draga úr ófyrirséðum útgjaldavexti ríkissjóðs.“

Loks segir á bls. 131: „Vöxtur hefur verið í kvikmyndaiðnaði á Íslandi á undanförnum árum með mælanlegum jákvæðum efnahags- og samfélagslegum áhrifum. Unnið verður að endurskoðun á lögum um endurgreiðslukerfi kvikmyndagerðar. Áhersla verður á að kerfið nýtist íslenskri kvikmyndagerð sem best, fyrirsjáanleika fjármögnunar, samkeppnishæfni og skilvirkni.“

Ekkert um framlög til Kvikmyndasjóðs

Ekkert er minnst á framlög til Kvikmyndasjóðs næstu árin í fjármálaáætluninni, en það hefur verið gert í fyrri áætlunum. Finna má heildartölu framlaga liðarins „Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál“ á bls 8. Þar er gert ráð fyrir allnokkrum niðurskurði á næstu árum, eða frá um 25 milljörðum 2026 niður í 21,8 milljarð 2030. Nemur niðurskurðurinn hátt í 13%, en verður meiri að raunvirði þegar upp er staðið.

Fyrir ári síðan kom í ljós við framlagningu Fjármálaáætlunar 2025-2029 að gert var ráð fyrir áframhaldandi niðurskurði Kvikmyndasjóðs. Því var síðan afstýrt á síðustu stundu við afgreiðslu fjárlaga undir lok árs, en eftir stendur að Kvikmyndasjóður hefur sætt um þriðjungs niðurskurði á undanförnum árum og enn er alveg óljóst hvort eða hvenær bætt verður úr.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR