Segir á vef RÚV:
Tinna sagði viðurkenninguna koma þeim hjónum svo sannarlega á óvart þegar þau veittu verðlaununum viðtöku.
„Það er ómetanlegt að hafa fengið að vera hluti af sögu íslenskrar kvikmyndagerðar frá svo gott sem upphafi. Ekki síður að hafa fengið að vera viðloðandi bransann allt fram á þennan dag og að hafa séð hvernig öllu hefur fleygt fram.“
„Við þökkum fyrir það og við þökkum fyrir þessa viðurkenningu,“ heldur Tinna áfram. Þau Egill hafi verið ung og áhugasöm þegar kvikmyndavorið brast á. Heimur kvikmyndanna hafi heillað með sitt nýja brum og alla sína möguleika til að tjá og túlka.
„Svo fór að við vorum kölluð til og höfum í gegnum tíðina átt aðkomu að fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta, saman og í sitthvoru lagi.“ Aðalhlutverkin séu orðin ótal mörg, hátt í 30.
Þau hafi stofnað þrjú framleiðslufyrirtæki sem öll gáfu út nokkrar bíómyndir. Þau hafi verið heppin og sloppið fyrir horn fjárhagslega, jafnvel grætt á einni mynd á meðan þau töpuðu á þeirri næstu.
„En allt var þetta þess virði. Það má vissulega halda því fram að það hafi ekki allt lukkast í gegnum tíðina en það er bara hluti af þroskaferlinu. Það á við um allar listgreinar. Sumt botnfellur á meðan annað flýtur ofan á. En svo mikið er víst að við getum öll verið stolt af þessari ungu listgrein, íslenskri kvikmyndagrein.“
Tinna segir að „við erum öll í heiminum og heimurinn er einn. Það er sama kvika sem bærist innra með okkur öllum og góð kvikmynd getur farið svo nærri því að komast að einhverjum sammannlegum kjarna. Þegar allt fellur saman og úr verður heildstætt listaverk geta áhrifin orðið svo sterk að við sem áhorfendur verðum ekki söm á eftir. Eitthvað situr eftir. Eitthvað hefur opnast. Einhver skilningur hefur vaxið og við fáum víðari sýn á manneskjuna og heiminn.“
Hún segir að listin sé mannbætandi þegar best lætur og að kvikmyndalistin sé svo sannarlega einn af beittustu hnífunum í skúffunni. „Við verðum að halda áfram að skapa og búa til, gera kvikmyndir. Við eigum erindi við heiminn, rétt eins og heimurinn á erindi við okkur.“
„Lifi íslensk kvikmyndagerð,“ segir hún að lokum og þau hjónin þakka fyrir sig.