Á vef RÚV segir:
Kvikmyndaskóli Íslands er gjaldþrota og starfsfólk hefur ekki fengið greidd laun. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Hlín Jóhannesdóttir, rektor skólans, sendir starfsfólki og nemendum.
Kvikmyndaskóli Íslands býður upp á tveggja ára verklegt nám í fjórum deildum, leikstjórn og framleiðslu, skapandi tækni, handritum og leikstjórn og leiklist.
Í tölvupóstinum biðst Hlín afsökunar á töfum á launagreiðslum og segir að rekstrarfélag skólans sé komið í gjaldþrotameðferð. Stjórnendur séu í áfalli yfir fréttunum og hafi ekki viljað trúa að til þessa kæmi.
Stjórnendur vinni heilshugar að því að færa skólann milli ráðuneyta, frá ráðuneyti menntamála yfir til ráðuneytis háskólamála og umræður um það hafi staðið yfir mánuðum saman.
Fundir með ráðuneytum
Í öðrum tölvupósti, sem sendur er á sama hóp, segir Hlín að í dag verði mikilvægir fundir milli skóla og ráðuneyta. Framhaldið ráðist á þessum fundum. Hún væntir þess að tilkynna í lok dags hvaða línur verða lagðar en allt kapp verði lagt á að ljúka misserinu í það minnsta. Markmiðið sé að halda starfseminni gangandi.
Hlín segir í skriflegu svari til fréttastofu að fundir um málefni Kvikmyndaskólans séu í gangi í dag. Hún veiti engar upplýsingar um málið fyrr en að fundunum loknum. Ekki náðist í aðra stjórnendur skólans við vinnslu fréttarinnar.