Jóna Gréta skrifar:
Fjallið er önnur frásagnarmynd Ásthildar Kjartansdóttur í fullri lengd en hún leikstýrði líka og skrifaði myndina Tryggð árið 2019. Líklega kannast líka margir Íslendingar við stuttmyndina hennar Palli var einn í heiminum (1997), sem var gerð eftir samnefndri danskri bók frá 1942 eftir rithöfundinn Jens Sigsgaard. Stuttmynd Ásthildar hefur tekist að verða eins konar klassík í íslenskri kvikmyndagerð. Aðalpersóna Fjallsins, Atli (Björn Hlynur Haraldsson), upplifir sig líka aleinan, líkt og Palli, en í sorginni sekkur hann djúpt niður, leitar sér hjálpar í áfengi og ýtir öllum öðrum sem skipta hann máli í burtu, þar á meðal dóttur sinni Önnu (Ísadóra Bjarkardóttir Barney).
Fjallið byrjar inni á vinnustofu hjá stjörnufræðingnum og móðurinni Maríu (Sólveig Guðmundsdóttir), þar sem áhorfendur komast að því að hún ætli í ferð á hálendið til að ná ljósmynd af halastjörnu sem hún telur sig hafa uppgötvað. Í kjölfarið fer hún heim til að undirbúa sig fyrir ferðina og er það fyrsta og eina atriðið með allri fjölskyldunni (og ef lesandi kærir sig ekki um að láta spilla fyrir sér atriði í myndinni er best að sá hinn sami hætti að lesa núna). Í atriðinu koma leikararnir og leikstjórinn, Ásthildur, dýnamíkinni milli fjölskyldumeðlima strax til skila. Það er til dæmis ljóst að feðginin Anna og Atli eiga meira sameiginlegt. Anna er að taka sín fyrstu skref í tónlistinni og Atli er gamall bassaleikari þó að hann starfi nú sem rafvirki. Þegar kemur að ferðinni hafa Atli og Anna lofað sig annað og komast ekki með Maríu. Áhugamál Maríu, þ.e. stjörnufræði, virðist því svolítið falla í skugga þeirra og verður það grunnurinn að því samviskubiti sem blandast saman við sorgina þegar þau seinna frétta að María hafi látist af slysförum í ferðinni. Þessi hryllilegi atburður umturnar lífi feðginanna og fjallar myndin í raun um það hvernig þau takast á við sorgina og samviskubitið yfir því að hafa ekki verið til staðar fyrir hana, ekki bara í ferðinni heldur líka í lífinu.
Í hádramatísku atriðum myndarinnar tekst leikurum og leikstjóra hins vegar ekki alltaf að framkalla þau viðbrögð og þær tilfinningar hjá áhorfendum sem þau lögðu líklega upp með. Þessu til stuðnings mætti nefna atriðið þar sem Anna sakar föður sinn um að hafa drepið móður sína en áhorfendur átta sig á því að það á að vera mjög sársaukafullt augnablik í lífi þeirra beggja, þó að ekki takist nógu vel að vekja þær tilfinningar hjá þeim sem horfa. Áhorfendur vissu fyrir að þau kenna sjálfum sér um dauða Maríu, sérstaklega Atli, og það bætir engu sérstöku við að segja það hreint út, setningin var þannig fyrirsjáanleg.
Kvikmyndatakan hjá Bergsteini Björgúlfssyni þjónaði tilgangi myndarinnar, atriði sem þurftu rými voru skotin á þrífæti og á víðari kantinum en átakanleg atriði fengu aðeins fleiri nærmyndir. Litgreiningin var þó köld og stundum voru húðtónar aðeins of bleikir, sem er samt ekki óalgengt í íslenskum kvikmyndum.
Hins vegar er ekki hægt að fjalla um Fjallið án þess að ræða fallegu tónlistina og hljóðheim myndarinnar. Örfá mistök mátti þó finna í þeim hluta; í eitt skipti í myndinni var eins og einhver hefði bara skyndilega kveikt á geisladiski en lagið átti að vera í bakgrunni, þ.e. ekki hluti af söguheimi. Líklega hefði verið farsælla að klippa tónlistina betur inn í söguframvinduna, það er að segja láta tónlistina hefjast þegar klippt er í annað skot en ekki láta hana byrja allt í einu í skoti sem er búið að vera lengi hljóðlaust, þá hefðu áhorfendur líklega ekki fundið eins mikið fyrir breytingunni, það er að segja að það sé allt í einu komin tónlist. Hins vegar er tónlistin í myndinni ótrúlega falleg og má þá sérstaklega nefna lagið „Já ég veit það“ sem Ísadóra semur og flytur.
Þrátt fyrir fyrrnefnda vankanta er Fjallið á heildina litið vel heppnuð og falleg mynd sem dregur upp trúverðuga mynd af samskiptum innan fjölskyldna og þeim flóknu tilfinningum sem geta komið á yfirborðið þegar einn fjölskyldumeðlimur kveður óvænt. Auk þess er vert að nefna að myndin hlaut svokallaða Green Film-vottun hér á landi og er þar með fyrsta íslenska kvikmyndin til að hljóta slíka vottun, en það er gríðarlegt mikilvægt skref í átt að sjálfbærri kvikmyndagerð hérlendis.