Kolbeinn skrifar:
Fjallið er önnur kvikmynd leikstjórans Ásthildar Kjartansdóttur í fullri lengd og hún samdi líka handritið. Fyrsta mynd hennar er Tryggð frá 2019 sem byggð er á bók Auðar Jónsdóttur, Tryggðarpantur. Með aðalhlutverk í Fjallinu fara Björn Hlynur Haraldsson sem Atli, Ísadóra Bjarkardóttir Barney sem Anna, Sólveig Guðmundsdóttir sem María og Þröstur Leó Gunnarsson sem Jónas, bróðir Atla.
Hjónin Atli og María búa í Hafnarfirði með 19 ára dóttur sinni Önnu. Þau virðast vera hversdagsleikinn uppmálaður, Atli er rafvirki, María stjörnufræðingur og Anna er í lítt þekktri hljómsveit og tónlistarnámi. Eina örlagaríka helgi fer María ein upp á hálendið til þess að reyna að taka mynd af halastjörnu, ferð sem Atli og Anna ætluðu sér með í. Ferð sem María snýr aldrei aftur úr. Líf mæðginanna breytist á einni nóttu og í gegnum Fjallið fylgjumst við með þeim glíma við veruleikann og að lifa með sorginni.
Fjallið er mjög lágstemmd mynd. Það er lítið í húfi og afleiðingarnar af tilfinningunum sem brjótast út eru minni háttar. Það er fátt sem kemur á óvart í því hvernig sagan þróast og það leikur aldrei neinn vafi á því að ekki muni allt fara vel að lokum. Myndin fer mjúkum höndum um aðalpersónur sínar og þrátt fyrir að Atli missi tökin á skapi sínu eftir dauða eiginkonu sinnar bitnar það oftar en ekki verst á honum sjálfum. Hann er mjög klassískur karlkarakter, getur ekki grátið en kemur þess í stað illa fram við fólkið í kringum sig og reynir að drekka sig í hel.
Þetta er án efa persóna sem er sönn en þó ekkert sérstaklega áhugaverð karakterstúdía. Hún hefur birst í svo mörgum kvikmyndum að það er erfitt að komast hjá því að kannast við hvern einasta takt í sögunni sem snýr að persónu hans. Það hefði verið áhugavert að sjá meira af því hvernig Anna glímir við missinn á þessum viðkvæmu árum. Hún er að finna sig í lífinu, reyna að koma tónlistarferlinum á flug og á sama tíma átta sig á því hvert hún vill stefna. Þetta er atburður sem er vís til að gjörbreyta lífi hennar. Hún fær þó takmarkaðan tíma til að syrgja áður en öll athyglin færist á það þegar hún verður ólétt. Hennar drama snýst meira um hvort hún ætli að eiga barnið og hvort hún sé tilbúin fyrir það. Sú saga er án efa lituð af móðurmissinum en henni tekst hvorki að vera nógu sterk sem stúdía á sorginni né þessari erfiðu lífsákvörðun til þess að ná utan um hvort tveggja. Með því að verja svona miklum tíma í sögu Atla er komið í veg fyrir að saga Önnu nái að njóta sín.
Það sem háir dramanu er einnig leikurinn. Því miður eru allt of mörg augnablik þar sem díalógurinn virkar stirður, sérstaklega í tilfelli Önnu. Hún virkar oft eins og hún sé að lesa línurnar sem búið var að skrifa í handritið frekar en að þær séu náttúruleg viðbrögð persónunnar.
Klipping myndarinnar er þó nokkuð góð og sérstaklega voru nokkrar klippingar á milli atriða mjög vel gerðar. Myndin heldur líka mjög vel góðu tempói svo hún virkar nærri styttri en hún er.
Þrátt fyrir ákveðna vankanta er eitthvað fallegt við hversu venjuleg Fjallið er. Það er bara óheppilegt slys sem hendir hversdagslega fjölskyldu sem þarf að takast á við sorgina á venjulegan hátt. Það eru engin samsæri, morð eða öfgafullt ofbeldi sem stýra stefnunni. Bara venjulegt líf venjulegs fólks.